Fara yfir á efnisvæði

Þyngdarkönnun á ostum

02.11.2012

Neytendastofa gerði könnun á þyngd forpakkaðra osta í verslunum. Skoðaðar voru tvær vörutegundir, 100 gramma Bóndabrie sem framleiddur er af Mjólkursamsölunni hf. og 130 gramma Glaðningi sem framleiddur er af Mjólkurbúinu ehf. Könnunin var gerð í kjölfar ábendinga neytenda sem bentu til þess að á markaði væru of léttir ostar miðað við uppgefna þyngd á pakkningu.

Við mælingar kom í ljós að Bóndabrie  frá Mjólkursamsölunni hf. uppfyllti kröfur um þyngd.

Niðurstöður mælinga á sýnum frá Mjólkurbúinu ehf. voru að 35% af sýnum af Glaðningi reyndust vera undir leyfilegu fráviki frá þyngd sem tilgreind er á umbúðum.  Léttasta sýnið reyndist aðeins 83 grömm í stað 130 g eða 35% undir þyngd. Einstaka sýni voru einnig yfir meðalþyngd þannig var þyngsta sýnið 58% yfir tilgreindri þyngd. 

Athygli vekur að mismunur á hæstu og lægstu frávikum er mikill á ostinum frá Mjólkurbúinu ehf en þess má geta að leyfilegt  er  að yfirpakka þannig að þyngd stakra pakkninga  sé meiri en tilgreint er á pakkningu. 

Ábyrgð á þyngd vöru er hjá framleiðendum en þeim ber að tryggja með löggiltum vogum að nettóþyngd sé í samræmi við merkingar á umbúðum. Neytendastofa hvetur framleiðendur til að virða gildandi reglur um magntilgreiningu á umbúðum og tryggja að magn vöru sem afhent er sé ávallt í samræmi við þyngdarmerkingar á umbúðunum.

Neytendastofa telur að athuganir hennar að undanförnu á forpökkuðum vörum sýni að mikilvægt sé  að auka aðhald að markaðnum.  Stofnunin mun halda áfram að taka við ábendingum og gera úrtaksskoðanir á ýmsum sviðum vöruviðskipta.

TIL BAKA