Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingar

05.04.2006

Neytendastofa kannaði nýlega verðmerkingar á samtals 3950 vörum í 79 matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður sýna að verðmerkingar eru mun lakari nú en þegar síðasta könnun fór fram fyrir einu ári síðan. Þannig var ósamræmi í verðmerkingum eða óverðmerkt í 12,2% tilvika en í sambærilegri könnun sem gerð var fyrir einu ári var ósamræmið 5,2% eins og sjá má í línuritinu hér að neðan, en þar má sjá árlegar niðurstöður þessara kannana frá árinu 1998.

 

 

Á undanförnum árum hafa verðmerkingar í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu verið kannaðar reglulega. Tilgangur þessara kannana hefur verið að athuga verðmerkingar í hillu og hvort samræmi væri milli verðmerkingar í hillu og verðs í afgreiðslukassa. Í könnuninni sem hér er fjallað um kom í ljós að í 5,6% tilvika var varan óverðmerkt í hillu. Í 3,3% tilvika var varan á hærra verði í afgreiðslukassa en í hillu og í 3,2% tilvika var varan á lægra verði í kassa en í hillu.

 

Þessar niðurstöður eru óviðunandi að mati Neytendastofu. Í lögum og reglum um verðmerkingar er Neytendastofu veitt heimild til að beita stjórnvaldssektum vegna brota eins og hér um ræðir. Niðurstöðurnar hafa verið kynntar verslununum. Neytendastofa mun kanna ástandið aftur fljótlega og verði það ekki bætt hefur verslununum verið tilkynnt að sektarúrræðum verði beitt.

 

TIL BAKA