Fara yfir á efnisvæði

Athugun Neytendastofu á vefsíðum fjármálafyrirtækja

13.01.2012

Í september 2011 tók Neytendastofa þátt í samræmdri skoðun á tíu vefsíðum fjármálafyrirtækja hér á landi. Á Íslandi voru eingöngu skoðaðar upplýsingar í tengslum við debetkortareikninga, yfirdráttarlán og kreditkort. Engar athugasemdir voru gerðar vegna kynninga á þessari þjónustu. Þó ber að hafa í huga að ekki voru skoðaðar upplýsingar varðandi aðra þjónustu fjármálafyrirtækjanna svo sem húsnæðislán.

Skoðun stofnunarinnar var gerð á grundvelli laga um neytendalán frá árinu 1994, en Evrópusambandið hefur hert þessar reglur með nýrri tilskipun um neytendalán 2008/48/EC sem hefur ekki verið innleidd í íslensk lög. Þar af leiðandi voru íslensku vefsíðurnar ekki skoðaðar með tilliti til hennar. Þegar íslenskum lögum um neytendalán hefur verið breytt til samræmis við nýju tilskipunina verða gerðar ríkari kröfur til upplýsinga sem eiga að koma fram í kynningum fjármálafyrirtækja á neytenda lánum.

Auk Íslands og Noregs tóku 27 aðildarríki ESB þátt í athuguninni sem tók til 562 vefsíðna. Athugunin leiddi í ljós að um 70% þeirra vefsíðna sem skoðaðar voru uppfylltu ekki skilyrði sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja sem kynna lán á vefsíðum sínum.

Neytendastofa mun halda áfram samstarfi við stjórnvöld í Evrópu í samræmdum aðgerðum á afmörkuðum sviðum viðskiptalífsins.

Fréttatilkynningu ESB í heild sinni má lesa hér.

TIL BAKA