Fara yfir á efnisvæði

Fréttatilkynning

16.07.2008

Neytendastofa vekur athygli á því að Viðskiptaráðuneytið hefur birt nýja reglugerð nr. 619/2008.  Reglugerð þessi er um bann við markaðssetningu, dreifingu og sölu kveikjara án barnalæsingar og kveikjara með óhefðbundið útlit sem höfða sérstaklega til barna.

Tilgangur bannsins er að fækka slysum af völdum kveikjara. Evrópsk vöruöryggisyfirvöld hafa lengi unnið að því að auka öryggi kveikjara og um leið öryggi neytenda. Talið er að á milli 1500- 1900 einstaklingar slasist og 30-40 einstaklingar láti lífið árlega í ríkjum evrópska efnahagssvæðisins af völdum fikts og leiks barna að kveikjurum. Í Bandaríkjunum, þar sem samskonar bann hefur verið í gildi síðan árið 1994, hafa brunum sem rekja má til kveikjara sem börn voru að fikta með fækkað um 60% eftir að löggjöf um barnalæsingar á kveikjurum tók gildi.

 Heimilt er að kveikjarar sem markaðssettir voru fyrir þann 11. mars 2007 séu áfram á markaði og aðgengilegir neytendum til 11. maí 2009. Þrátt fyrir að frestur sé til 11. maí á næsta ári er rétt að taka það fram að æskilegt er að vörur af þessu tagi hverfi af markaðinum sem allra fyrst.
Neytendastofa mun eftir 11. maí 2009 hefja markaðseftirlit til að kanna hvort kveikjarar án barnalæsingar og kveikjarar með óhefðbundið útlit hafi verið fjarlægðir af markaðinum.
Nánar tiltekið er kveikjari með barnalæsingu framleiddur og hannaður á þann hátt að börn yngri en 51 mánaða geta ekki kveikt á kveikjararum við eðlilegar eða fyrirsjáanlegar aðstæður þar sem kraftur þeirra og tækni eru ekki nægjanleg.  Barnalæsingin virkar með þeim hætti að í stað þess að einungis sé ýtt á takka eða hjóli rúllað til þess að opna fyrir eldi á kveikjara þá þarf samhliða að halda inni öðrum takka. Börn eiga erfitt að gera hvoru tveggja í senn og eiga ekki að geta kveikt á kveikjaranum. Kröfur um barnalæsingu á kveikjurum á við um einnota kveikjarar þar sem þeir eru seldir í stóru upplagi, oft fleiri í pökkum og sem gjarnan eru notaðir sem ódýr vara sem hægt er að fleygja.
 
Kveikjarar með óhefðbundið útlit eru kveikjarar sem höfða til barna og veldur því að mikil hætta er á að börn yngri en 51 mánaða taki kveikjarann í misgripum og noti við leik. Kveikjarar af þessu tagi geta litið út eins og bíll, farsími, dýr eða vera sem blikkar eða gefur frá sér hljóð.
Almennar reglur um öryggi kveikjarar er að finna í staðlinum ÍST EN 9994 og öryggisreglur varðandi barnalæsingar á kveikjurum er að finna í staðalinum ÍST EN 13869. Dreifingaraðilum og seljendum kveikjara er bent á að kynna sér vandlega ofangreinda reglugerð sem og staðla og hefjast handa við að koma kveikjurum án barnalæsingum og kveikjurum með óhefðbundið útlit af markaði sem fyrst.

Finna má reglugerð nr. 619/2008 hér

Hjá Staðlaráði Íslands má kaupa m.a. kaupa ofangreinda staðla. Heimasíða Staðlaráðs Íslands er : www.stadlar.is

Á heimasíðu evrópskra vöruöryggisyfirvalda má finna nánari upplýsingar um bannið á öllum tungumálum ríkja Evrópusambandsins sjá hér.  

 

TIL BAKA