Fara yfir á efnisvæði

Lénin gularsidur.is og gularsíður.is

20.09.2012

Neytendastofu barst kvörtun frá Já Upplýsingaveitur ehf. yfir skráningu og notkun Finna ehf. á lénunum gularsidur.is og gularsíður.is. Já Upplýsingaveitur eiga skráð vörumerkið GULU SÍÐURNAR hjá Einkaleyfastofu og höfðu notað það frá árinu 1934. Því taldi fyrirtækið sig eiga einkarétt til auðkennisins og banna ætti Finna að nota lénin.

Til þess að fyrirtæki geti notið einkaréttar á fyrirtækjaheiti, léni eða öðru auðkenni samkvæmt þeim lögum sem Neytendastofa hefur eftirlit með verður auðkennið að vera sérkennandi. Í því felst að auðkennið má ekki vera almennt eða lýsandi fyrir starfsemina. Þá þarf að vera hætta á að neytendur ruglist á fyrirtækjunum af því að auðkenni þeirra séu lík.

Neytendastofa taldi vörumerki Já Upplýsingaveita og lén Finna vera eitt og sama orðasambandið sett saman úr tveimur almennum orðum. Neytendastofa taldi samsetningu orðanna ekki veita því sérkenni auk þess sem sýnt var fram á mjög langa notkun hérlendis á gulum lit til auðkenningar á atvinnu- og viðskiptaskráningum, bæði af Já Upplýsingaveitum og öðrum aðilum.

Neytendastofa taldi orðasambandið gular síður því lýsandi fyrir starfsemina og Já Upplýsingaveitur ekki eiga einkarétt á því. Finna var því ekki bannað að nota lénin gularsidur.is og gularsíður.is.

Ákvöðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA