Fara yfir á efnisvæði

Fréttatilkynning

24.09.2007

Ákvörðun Neytendastofu í máli neytanda gegn Heimsferðum ehf. hefur verið staðfest. Neytendastofa kvað upp úrskurð í máli neytanda gegn Heimsferðum ehf. 28. júlí 2006 þar sem úrskurðað var að Heimsferðir ehf. hafi með því að krefja neytandann um viðbótargreiðslu fyrir alferð í tilefni af gengislækkun krónunnar brotið gegn ákvæðum 7. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 80/1994, um alferðir.
Lögmaður Heimsferða ehf. áfrýjaði úrskurðinum til æðra stjórnvalds þ.e. samgönguráðuneytisins sem hefur nú staðfest úrskurð Neytendastofu.
Í máli þessu krafði Heimsferðir ehf. neytandann um viðbótargreiðslu að fjárhæð 13.284,- kr. með vísan til gengislækkunar íslensku krónunnar á þeim fjórum mánuðum sem liðu frá því að pöntun var gerð og ferðin var greidd með almennri tilvísun til gengislækkunar krónunnar á þessu tímabili. Í almennum skilmálum og samningi aðila var hins vegar ekki tilgreint hvernig að framangreind hækkun skyldi reiknuð út og gat ferðaskrifstofan ekki sýnt fram á með hvaða hætti framangreind hækkun á alferð neytandans var fundin út.
Neytendastofa taldi sem fyrr segir að um væri að ræða brot á lögum um alferðir sem nú hefur verið staðfest á æðra stjórnsýslustigi af hálfu samgönguráðuneytisins með úrskurði ráðuneytisins.
Í niðurstöðu ráðuneytisins og Neytendastofu er Heimsferðum ehf. bent á að orða skilmála sína með skýrari hætti og tilgreina nákvæmlega hvernig verðbreytingar séu reiknaðar og við hvaða gengi er miðað þannig að uppfyllt séu ákvæði alferðarlaga nr. 80/1994.
Neytendastofa vill í ljósi úrskurðarins beina því til þeirra sem selja alferðir að breyta almennum ferðaskilmálum þannig að ákvæði laga um alferðir séu framvegis uppfyllt að þessu leyti. Framangreindri ábendingu hefur einnig verið komið á framfæri til Samtaka aðila í ferðaþjónustu (SAF).
Nánari upplýsingar veita Tryggvi Axelsson, forstjóri og Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri, Neytendaréttarsviðs en úrskurðina er að finna hér á heimasíðu Neytendastofu www. neytendastofa.is.

Reykjavík 24. september 2007

TIL BAKA