Fara yfir á efnisvæði

Ný stofnun - Neytendastofa

08.07.2005

Á nýliðnu þingi voru samþykkt ný lög um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005. Samkvæmt þeim lögum tók ný stofnun, Neytendastofa til starfa hinn 1. júlí s.l. og tók hún við hlutverki Löggildingarstofu sem lögð var niður frá sama tíma og hluta af þeim verkefnum sem áður voru á starfssviði Samkeppnisstofnunar.

Þannig mun Neytendastofa annast framkvæmd laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins og laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eins og nánar er kveðið á í lögum um það efni. Þá annast stofnunin einnig dagleg störf og undirbúning mála fyrir talsmann neytenda. Neytendastofa fer með rafmagnsöryggismál eins og kveðið er á um í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Einnig hefur stofnunin yfirumsjón með mælifræði og umsjón landsmæligrunna. Á sviði lögmælifræði hefur stofnunin umsjón með framkvæmd laga um vog, mál og faggildingu. Á sviði hagnýtrar mælifræði starfrækir stofnunin kvörðunarþjónustu á mælitækjum fyrir atvinnulífið og opinbera aðila. Neytendastofa mun einnig leysa af hendi þau verk sem henni eru falin í öðrum lögum. Auk þessara verkefna er Neytendastofu ætlað að vinna að stefnumótun á sviði neytendamála og beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á því sviði.  Stöðugildi Neytendastofu eftir sameiningu starfsdeilda Löggildingarstofu og Samkeppnisstofnunar eru alls 22. 

Á næstu vikum verður starfsemi stofnunarinnar endurskoðuð með tilliti til breytts skipulags. Neytendastofa og embætti talsmanns neytenda eru til húsa í Borgartúni 21 í Reykjavík.

 

TIL BAKA