Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingareftirlit á Akranesi og í Borgarnesi

12.04.2010

Dagana 15 - 17. mars sl. gerði Neytendastofa athugun á ástandi verðmerkinga í verslunum og þjónustufyrirtækjum á Akranesi og í Borgarnesi.

Farið var í 24 sérverslanir með ýmis konar rekstur. Einungis voru gerðar athugasemdir við verðmerkingar í verslun hjá Kaupfélagi Borgfirðinga og í sýningargluggum hjá Gallerí – Ozone og Finni Þórðarsyni, gullsmiði.

Alls voru þrjú bakarí heimsótt, tvö á Akranesi en eitt í Borgarnesi. Á Akranesi voru verðmerkingar í góðu lagi í Brauð og kökugerðinni en í Harðarbakaríi voru verðmerkingar í góðu lagi í borði en ábótavant í kæli. Verðmerkingar í Geirabakaríi, Borgarnesi voru í lagi.

Bensínafgreiðslustöðvar komu einnig nokkuð vel út. Teknar voru vörur af handahófi og borið saman hillu- og kassaverð. Ekkert ósamræmi var á milli verða hjá N1, Olís í Borgarnesi og Skeljungi á Akranesi. Athugasemdir voru gerðar við verðsamræmi hjá Olís á Akranesi og Skeljungi í Borgarnesi. Verðmerkingar í kæli voru í lagi á öllum stöðvunum á Akranesi og hjá Olís í Borgarnesi en þeim var ábótavant hjá Skeljungi og N1 Borgarnesi. Verðmerkingar á eldsneyti utandyra voru til fyrirmyndar á öllum stöðvum.

Heimsóttar voru fjórar hárgreiðslustofur á Akranesi, Rakarastofa Gísla, Hárstíll, Hárskerinn og Hárhús Kötlu og þrjár í Borgarnesi, SOLO, TK og Hárgreiðslustofa Elfu. Óhætt er að segja að verðmerkingar og sýnileiki verðskráa hafi verið til fyrirmyndar enda var engin athugasemd gerð.

Snyrtistofan Face á Akranesi var heimsótt og var verðskrá sýnileg og verðmerking í hillum í lagi.

Farið var í þrjú apótek Apótekarinn og Apótek Vesturlands og Lyfja í Borgarnesi. Tekið var út ástand verðmerkinga í verslunarrými og á bakvið afgreiðsluborð auk þess sem gerð var athugun á samræmingu á milli hillu- og kassaverð. Hjá Lyfju í Borgarnesi voru engar athugasemdir gerðar við verðmerkingar. Verðmerkingar í verslunarrými voru í góðu lagi í Apóteki vesturlands en viðunandi í Apótekaranum. Hvorugt apótekanna var þó með vörur á bakvið afgreiðsluborðið verðmerkt. Í öllum apótekunum var 100% samræming á milli hillu- og kassaverðs í þessu úrtaki.

Farið var í heimsókn á hjólbarðaverkstæði Harðar í Borgarnesi, þar var allt til fyrirmyndar.

Aðilum sem Neytendastofa telur ástæðu til þess að gera athugasemdir við vegna verðmerkinga hefur verið sent bréf frá stofnuninni og gefinn kostur á að koma verðmerkingum í viðunandi horf. Könnuninni verður fylgt eftir og ef þurfa þykir teknar ákvarðanir um viðurlög vegna slæms ástands verðmerkinga.

Neytendastofa mun halda áfram að fylgja eftir sjálfsögðum rétti landsmanna og veita fyrirtækjum landsins nauðsynlegu aðhaldi sem skilar sér í formi góðrar og sýnilegri verðmerkingu vara.

TIL BAKA