Fara yfir á efnisvæði

Endurskinsmerki

09.10.2012

Neytendastofa vill koma á framfæri til neytenda að áður en fólk kaupir eða fær endurskinsmerki gefins að skoða allar merkingar á því.  Það hefur komið of oft fyrir að merki séu seld sem endurskinsmerki en eru það í raun ekki.

Neytendur geta ekki séð  hversu góð endurskinsmerki eru með því einu að horfa á þau, því hvetur Neytendastofu fólk að skoða vel upplýsingarnar sem gefnar eru á merkinu, umbúðum eða upplýsingablaði sem fylgir þeim.  Það er mjög áríðandi að allar tilskildar merkingar og leiðbeiningar um notkun komi greinilega fram.

Endurskinsmerki sem standast kröfur verða að vera m.a. með CE-merki og merkt með númerinu EN 13356 eða ÍST EN 13356. Slík merking táknar að framleiðandinn hafi látið prófa vöruna og staðfest er að hún sé í lagi. Viðurkennd endurskinsmerki sýna einstakling sem mætir bíl með lágum ljósum í 125 metra fjarlægð.

Endurskinsmerki t.d. vesti, smellubönd, límborðar eða hárskraut sem uppfylla ekki kröfur um endurskin veita  falskt öryggi og getur þar af leiðandi skapast  lífshætta þar sem einstaklingurinn telur sig vera með endurskinsmerki sem ökumenn ættu að sjá.

TIL BAKA