Fara yfir á efnisvæði

Aðgerðir gegn ólöglegum kveikjurum

09.09.2010

Fréttamynd

Mörg alvarleg slys hafa orðið vegna þess að börn hafa verið að leika sér með kveikjara. Til að bæta öryggi neytenda í Evrópu hafa verið settar reglur sem gilda í öllum aðildarríkjum evrópska efnahagssvæðisins sem banna markaðssetningu og sölu kveikjara sem ekki eru útbúnir með barnalæsingu og kveikjara með óhefðbundið útlit sem höfða sérstaklega til barna. Dæmi um slíka kveikjara eru t.d. kveikjarar sem líta út eins og byssa, dýr eða matur eða gefa frá sér hljóð, eru með blikkandi ljós eða  hangandi skraut. Bann þetta tók gildi á Íslandi fyrir tveimur árum.

Neytendastofa tekur nú þátt í verkefni um öryggi kveikjara á vegum PROSAFE, samstarfsnets evrópskra stjórnvalda á sviði vöruöryggis. Verkefnið er framhald af sams konar verkefni sem lauk í desember 2009. Markmiði þess verkefnis var að hluta til náð og voru m.a. um 500 gerðir af kveikjurum teknar af markaði í Evrópu. Flest ríkin greindu frá því að þau yrðu ekki lengur vör við markaðssetningu kveikjara sem hafa óhefðbundið útlit og hefur því tekist nokkuð vel að fjarlægja þessa vöru af markaðnum. En einnig kom fram að enn er stór hluti af þeim ódýru kveikjurum sem markaðssettir eru í Evrópu sem uppfyllir ekki öryggiskröfur sem gerðar eru til kveikjara í lögum og reglum, s.s. um barnalæsingu. Með barnalæsingu er verið að koma í veg fyrir að börn geti kveikt á kveikjara með einföldum hætti. Barnalæsing getur til dæmis verið stíft hjól eða takki sem þarf að ýta niður af miklu afli.

Í ljósi þess að ólöglegir kveikjarar finnast enn á markaði hafa PROSAFE og aðildarríkin ákveðið að halda áfram aðgerðum vegna kveikjara. Verkefnið sem nú er farið í gang mun taka þrjú ár og eru þátttakendur frá þrettán aðildarríkjum EES, þ.á m. Íslandi.

Neytendastofa vill benda fólki á að meðhöndla alltaf kveikjara af varkárni og hafa í huga ákveðin atriði varðandi örugga notkun kveikjara sem sjá má hér

Neytendastofa hvetur fólk til að senda ábendingar til stofnunarinnar um kveikjara sem þeir telja ólöglega, nafnlaust eða undir nafni með skráningu notenda í þjónustugátt stofnunarinnar, sjá nánari upplýsingar og leiðbeiningar á heimasíðu Neytendastofu.

TIL BAKA