Fara yfir á efnisvæði

Forlaginu ekki bannað að nota heitið Bókatíðindi Forlagsins

23.06.2010

Neytendastofu barst kvörtun frá Bjarti - Veröld vegna útgáfu Forlagsins á Bókatíðindum Forlagsins og birtingu auglýsingar með metsölulista Forlagsins.

Bjartur - Veröld taldi Bókatíðindi Forlagsins valda ruglingi við þau Bókatíðindi sem félag íslenskra bókaútgefanda hafi gefið út um árabil, notast væri við sama heiti og uppsetning tíðindanna væri lík. Þá taldi Bjartur - Veröld auglýsingu með metsölulista Forlagsins villandi þar sem ekkert hafi verið gert til þess að auðkenna listann sem auglýsingu og almennur lesandi gæti því haldið að um metsölulista hlutlauss aðila væri að ræða.

Neytendastofa taldi útgáfu Forlagsins á Bókatíðindum ekki brjóta gegn lögum nr. 57/2005. Heitið sé almennt og lýsandi fyrir bæklinginn auk þess sem það hafi verið notað um langa hríð af einstökum bókaförlögum til kynningar á þeim bókum sem þau gefa út. Félag íslenskra bókaútgefenda geti því ekki notið einkaréttar á orðinu Bókatíðindi. Þá var að mati stofnunarinnar ekki sýnt fram á það í málinu að tilgangur útgáfunnar hafi verið að blekkja neytendur til þess að halda að um væri að ræða Bókatíðindi félagsins.

Neytendastofa taldi auglýsingu Forlagsins um metsölulista þess heldur ekki brjóta gegn lögunum. Að mati stofnunarinnar færi ekki á milli mála að verið væri að kynna hvaða bækur Forlagsins séu mest seldar enda var fyrirsögn auglýsingarinnar „METSÖLULISTI FORLAGSINS“ skrifað með hástöfum.

TIL BAKA