Fara yfir á efnisvæði

Villandi merkingar á vörum frá ICEWEAR og NORWEAR

16.08.2013

Neytendastofa hefur bannað Drífu ehf. notkun á merkingum á vörum frá ICEWEAR og NORWEAR án þess að fram komi hvaðan vörurnar séu upprunnar.

Samtök iðnaðarins kvörtuðu yfir því að vörurnar væru merktar með þeim hætti að gefið sé til kynna að um íslenska vöru og íslenska framleiðslu sé að ræða en þær séu framleiddar erlendis og úr erlendum afurðum. Á merkimiðum sé mynd af íslenskum fána sem gefi til kynna að þær séu íslenskar. Samtökin kvörtuðu einnig yfir upplýsingum um ullarteppi á heimasíðu Drífu sem sögðu að varan væri framleidd af Víkurprjóni. Samtök iðnaðarins hafi hins vegar upplýsingar um að ekki séu til vélar til framleiðslu þessara teppa á Íslandi.

Áður en til meðferðar málsins kom hafði Drífa breytt upplýsingum á vefsíðu sinni um ullarteppið og gefið út fréttatilkynningu með leiðréttingu. Því taldi Neytendastofa ekki ástæðu til frekari aðgerða vegna þessa þó um væri að ræða brot gegn lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

Á merkimiðunum, sem ákvörðunin snýr að, er að finna tilvísun á heimasíðuna norwear.com, upplýsingar um Drífu og þar við hlið er mynd af íslenskum fána. Hvorki á merkimiðanum né á öðrum miðum, sem saumaðir eru í vöruna, eru upplýsingar um framleiðslu vörunnar. Einu upplýsingarnar sem neytendum eru veittar um uppruna hennar vísa til Íslands þrátt fyrir að varan sé framleidd erlendis og úr erlendum afurðum. Í ákvörðuninni er um það fjallað að Neytendastofa telji merkingarnar villandi gagnvart neytendum og til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn. Því sé um að ræða brot á lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

Ákvörðun Neytendastofu má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA