Fara yfir á efnisvæði

Samráð stjórnvalda á EES svæðinu um réttindi flugfarþega

26.04.2010

Neytendastofa tók í dag þátt í samráðsfundi sem framkvæmdastjórn ESB skipulagði með stjórnvöldum á sviði neytendamála til að fara yfir og ræða helstu réttindi flugfarþega vegna seinkunar og tafa af völdum ösku úr Eyjafjallajökli.

Á fundinum var um það rætt að ákvæði í lögum og reglugerðum á öllu EES svæðinu eru að mestu samræmd og eru almennt skýr um réttindi neytenda vegna kaupa á flugmiðum og alferðum. Réttindi neytenda eru því almennt þau sömu eða sambærileg, óháð því hvar í Evrópu þeir eru.

Þegar töf verður á flugi eða því er aflýst felast réttindi neytenda m.a. í eftirfarandi:
•    Rétti á máltíðum, hótelgistingu og tveimur símtölum ef flugi seinkar eða því er breytt að frumkvæði flugrekanda.
•    Rétti á að fá flugið að fullu endurgreitt eða breyta því þeim að kostnaðarlausu ef flugi er aflýst eða breyting á flugtíma er mikil. Í því tilviki eiga neytendur ekki rétt á frekari aðstoð frá flugfélagi, s.s. hótelgistingu eða máltíðum.
•    Rétti á fullri endurgreiðslu ferðarinnar ef um er að ræða alferð (pakkaferð) sem ekki er hafin og fyrirséðar eru miklar breytingar á ferðinni.
•    Rétti á því að fá áfram máltíðir og hótelgistingu ef um er að ræða alferð (pakkaferð) og neytendur komast ekki heim.
•    Rétti til að snúa sér með kröfur til ferðasalans það er flugfélagsins eða ferðaskrifstofu sem seldi alferðina (pakkaferðina).

Vakin er sérstök athygli neytenda á því að þeir eiga  ekki rétt til skaðabóta fyrir afleitt tjón þegar breytingar stafa af náttúruhamförum, t.d. bætur fyrir tekjumissi eða annað óhagræði sem tafirnar eða breytingarnar af völdum eldgossins hafa valdið þeim.

Þess má geta að flugfélög geta ekki sjálf ákveðið einhliða að endurgreiða farmiða og komast þannig hjá greiðslu á aukakostnaði vegna tafa sem orðið hafa á flugi vegna eldgossins. Veiti flugfélög neytendum ekki val að þessu leyti telst það vera brot á reglum ESB sem einnig hafa verið lögleiddar á Íslandi.

Neytendur geta snúið sér til Neytendastofu með kvartanir vegna alferða (pakkaferða) en Flugmálastjórnar vegna áætlunarflugs.

Nánari upplýsingar um réttindi flugfarþega má sjá hér.

 

TIL BAKA