Fara yfir á efnisvæði

Reiknivél PFS um fjarskiptakostnað opnuð

22.06.2010

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) mun í dag, opna vefinn Reiknivél PFS,  (http://www.reiknivel.is). Tilgangur reiknivélarinnar er að auðvelda neytendum að átta sig á flóknum fjarskiptamarkaði og bera saman verð á þjónustuleiðum fjarskiptafyrirtækjanna fyrir heimasíma, farsíma og ADSL nettengingar.  Reiknivél PFS tekur til algengustu innanlandsnotkunar á heimasíma og farsíma  og niðurhals á gögnum erlendis frá með ADSL tengingum.

Hægt er að fara tvær leiðir við notkun vélarinnar fyrir heimasíma og farsíma:  Nota hreyfanlegan kvarða þar sem gengið er út frá meðalgildum fyrir litla til mikla notkun eða slá inn eigin tölur um notkun.  Við útreikning ber reiknivélin saman verðskrár fjarskiptafyrirtækjanna fyrir sambærilegar þjónustuleiðir. 

Ekki er gert ráð fyrir að reiknivélin sé notuð til að sannreyna símareikninga einstakra notenda. Ástæður þess eru m.a. einstaklingsbundin sérkjör s.s. vinanúmer, dreifing á lengd símtala sem er mjög einstaklingsbundin, auk þess sem reikningar fjarskiptafyrirtækjanna eru mismunandi og misjafnt hvaða upplýsingar koma fram.

Á vefnum Reiknivél PFS, eru leiðbeiningar um notkun vefsins, spurningar og svör varðandi virkni reiknivélarinnar og notkun, skýringar á forsendum útreikninga og hlekkir á gagnlegan fróðleik fyrir neytendur um ýmislegt sem varðar farsíma-, heimasíma- og netþjónustu.

TIL BAKA