Fara yfir á efnisvæði

Fullyrðing og slagorð Prentvara bönnuð

19.12.2012

Neytendastofa hefur bannað Prentvörum að birta auglýsingar með fullyrðingunni „Þúsundir ánægðra viðskiptavina vita hvar þeir fá prenthylki sem eru allt að 50% ódýrari“ auk þess sem fyrirtækinu hefur verið bannað að birta slagorðið „borgaðu minna, prentaðu meira“.

Í tilefni kvörtunar Nýherja fór Neytendastofa fram á að Prentvörur sönnuðu fullyrðinguna og slagorðið. Í skýringum Prentvara kom fram að átt væri við að samhæfð eða endurgerð prenthylki sem Prentvörur selji séu allt að 50% ódýrari en upprunaleg prenthylki sem aðrir selji og því geti þeir sem kaupi prenthylki hjá Prentvörum prentað meira fyrir minni pening.

Neytendastofa taldi fullyrðinguna afar afdráttarlausa og gefa til kynna að borið væri saman verð á upprunalegum prenthylkjum. Þrátt fyrir að samhæfð eða endurgerð prenthylki geti talist staðgönguvara fyrir upprunaleg prenthylki telji Neytendastofa fullyrðinguna, eins og hún sé sett fram af Prentvörum, til þess fallna að veita villandi upplýsingar um vörur Prentvara og verð þeirra í samanburði við keppinauta.

Rök Prentvara fyrir slagorðinu voru þau sömu og fyrir fullyrðingunni. Með vísan til sömu sjónarmiða taldi Neytendastofa slagorðið því einnig fela í sér villandi upplýsingar.

Ákvörðun nr. 50/2012 má lesa hér.

TIL BAKA