Fara yfir á efnisvæði

Ástand verðmerkinga á Árborgarsvæðinu og í Hveragerði

06.11.2009

Dagana 13 – 14. október síðastliðinn voru verðmerkinga kannaðar í 78 fyrirtækjum á Árborgarsvæðinu og Hveragerði.  Af þessum fyrirtækjum fengu 20 þeirra sent bréf með ábendingum um úrbætur á ástandi verðmerkinga.

Af þeirri 41 sérvöruverslun sem var heimsótt  voru 36 verslanir með verðmerkingar í góðu lagi eða í 88% tilfella. Það eru svipaðar niðurstöður og í könnun Neytendastofu frá desember 2008. Verslanirnar T.R.S., Fossraf, Karl R. Guðmundsson og Lyf & heilsa  fengu athugasemndir vegna ástands verðmerkinga í verslun og verslunin Snúðar og Snældur athugasemd varðandi verðmerkingu í sýningarglugga.

Farið var í fimm matvöruverslanir, Krónuna, Bónus og Samkaup/Úrval á Selfossi, Bónus í Hveragerði  og Kjarval í Þorlákshöfn. Á Selfossi voru gerðar athugasemdir hjá Krónunni vegna ástands verðmerkinga í verslun og hjá Bónus  vegna verðmerkinga í grænmetiskæli . Ástand verðmerkinga var hins vegar gott hjá Bónus í Hveragerði og Kjarval en viðunandi hjá Samkaup/Úrval.  Einnig var gerð athugun á samræmi milli hillu og kassaverðs, þar sem valdar voru 50 vörutegundir af handahófi. Niðurstöðurnar voru þannig að í verslun Bónus á Selfossi voru gerðar 11 athugasemdir, hjá Krónunni voru gerðar 13 athugasemdir, í verslun Samkaupa/Úrvals voru gerðar tíu athugasemdir, fjórar athugasemdir voru gerðar hjá Kjarval og hjá Bónus í Hveragerði voru einungis gerðar þrjár athugasemdir.

Farið var í Byko, Húsasmiðjunnar og Europris  á Selfossi, þar sem gerð var úttekt á ástandi verðmerkinga á sérvöru,og athugað samræmi milli hillu- og kassaverðs. Verðmerkingar reyndust í góðu lagi í öllum stórmörkuðunum og ber þess sérstaklega að geta að hjá Europris voru engar athugasemdir gerðar við samræmi milli hillu- og kassaverðs. Þetta er í fyrsta skipti sem fulltrúar Neytendastofu bera saman hillu- og kassaverð í stórmörkuðum með sérvöruá þessu svæði.

Almennt voru verðmerkingar í borði hjá bakaríum á þessu svæði í góðu lagi en hjá Vilberg kökuhúsi  var verðmerkingum ábótavant. Verðmerkingar á vörum í kæli var ábótavant. Af þeim fimm bakaríum sem voru heimsótt voru einungis tvö þeirra með verðskrá yfir vörur í kæli, þau eru Guðnabakarí á Selfossi og Hverabakarí í Hveragerði.

Heimsóttar voru átta hár- og/eða snyrtistofur og var verðskrá yfir þjónustu sýnileg á þeim öllum. Aftur á móti voru söluvörur óverðmerktar hjá Stofunni og snyrtistofunni Myrra á Selfossi.

Á bensínafgreiðslustöðum voru verðmerkingar  í góðu lagi á þremur  af þeim sex sem voru í úrtakinu.  Ástand verðmerkinga í kæli var ábótavant hjá Olís Arnbergi á Selfossi og Skeljungi Hásteinsvegi á Stokkseyri en hjá Skeljungi Austurmörk í Hveragerði voru vörur í kæli óverðmerktar. Gerð var sérstök könnun á samræmi milli hillu og kassaverðs, þar sem valdar voru átta vörur af handahófi. Í 81% tilfella reyndist samræmi á milli hillu- og kassaverðs, í 11% tilfella var varan óverðmerkt, í 4% tilfella var verð hærra á kassa en í hillu og lægra á kassa en í hillu í 4% tilfella. Þess ber að geta að hjá Olís Arnbergi á Selfossi var ekkert ósamræmi á milli hillu- og kassaverðs á þeim vörum sem teknar voru út.

Heimsótt voru þrjú hjólbarðaverkstæði, ekkert þeirra reyndist með verðskrá yfir þjónustu sýnilega. Hjá Sólningu á Selfossi var hún til staðar en ekki sýnileg viðskiptavinum en hjá Bílaverkstæði Jóhanns og hjá Þjónustustöðinni í Þorlákshöfn var hún ekki til staðar.

Neytendastofa mun halda áfram verðmerkinga- og verðkannanaeftirliti sínu og gera athugun hjá fleiri verslunum.  Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni  neytendastofa.is.

 

TIL BAKA