Fara yfir á efnisvæði

Athugun á sölu þjónustu tengdri farsímum á netinu

17.07.2008

Neytendastofa er aðili að samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, sbr. ákvæði laga nr. 56/2007. Nýr þáttur í samstarfinu eru samræmdar aðgerðir á ýmsum afmörkuðum sviðum viðskiptalífsins, á ensku nefnt „sweep“. Aðildarríkin sem taka þátt í aðgerðinni hverju sinni kanna samtímis og með sama hætti í öllum ríkjunum hvort réttindi neytenda séu virt. Í framhaldi taka stjórnvöld ákvarðanir um nauðsynleg viðbrögð gagnvart fyrirtækjum sem ekki fylgja reglum á sviði neytendaverndar.

Dagana 2. - 6. júní s.l. var gerð athugun  sem sneri að sölu þjónustu tengdri farsímum á Netinu, þ.e. hringitónum, veggfóðurs/mynda, leikja o.þ.h. Öll 27 aðildarríki Evrópusambandsins auk Íslands og Noregs tóku þátt í aðgerðinni og náði hún til 558 vefsíðna. Sérstaklega var rannsakað hvort verðupplýsingar á vefsíðum væru nægilega skýrar, hvort nauðsynlegar upplýsingar um seljanda væri að finna og hvort markaðssetning væri villandi. Niðurstöður aðgerðarinnar voru kynntar í dag af framkvæmdastjóra neytendamála hjá Evrópusambandinu.
Niðurstöðurnar leiddu í meðal annars í ljós að: 

 • 80% vefsíðna uppfylla ekki öll skilyrði neytendalaga og þarfnast  nánari  athugunar.
 • 50% beina markaðssókn sinni að börnum og ungmennum. Af þeim kom í ljós að 80% þessara vefsíðna þarfnast einnig nánari athugunar við.

Flestar athugasemdir eftirlitsaðilanna snéru að skorti á nauðsynlegum upplýsingum um seljanda, markaðssetning var villandi eða verðupplýsingum var ábótavant.

Athugun Neytendastofu tók til átta vefsíðna á íslensku sem bjóða þjónustu tengda farsímum. Kannað var hvort vefsíðurnar væru í samræmi við ákvæði laga um óréttmæta viðskiptahætti nr. 57/2005, laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu nr. 30/2002 og laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga nr. 46/2000, en öll framangreind lög byggja á sameiginlegum reglum Evrópska efnahagssvæðisins. Af þeim vefsíðum sem kannaðar voru var aðeins ein sem uppfyllti skilyrði ofangreindra laga varðandi sölu á farsímaþjónustu en það var vefsíða Símans. Á vefsíðum í eigu d3 miðla, huga.is, Icon, Nova, Stjörnuspekistöðvarinnar, Tals og Vodafone skorti á upplýsingar um seljanda en samkvæmt lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu er seljanda skylt að gefa upp á vefsíðu sinni allar helstu upplýsingar, þ.m.t. nafn, heimilisfang, kennitölu, opinbera skráningu og virðisaukaskattsnúmer seljanda.
Næsti liður í aðgerðinni hjá Neytendastofu er að hafa samband við framangreinda aðila og óska eftir lagfæringum og skýringum vegna athugasemda sem gerðar eru. Í byrjun næsta árs mun stofnunin tilkynna samstarfsnefndinni og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um árangurinn.

Fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í heild má lesa hér.

TIL BAKA