Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingar í miðbæ Reykjavíkur

25.09.2013

Fréttamynd

Verslunareigendur eru skyldugir til að hafa verðmerkingar skýrar og vel sýnilegar bæði inni í verslun og í sýningargluggum. Dagana 12. – 22 ágúst sl. fóru fulltrúar Neytendastofu í  eftirlitsferð í sérverslanir í miðbæ Reykjavíkur. Farið var í 119 verslanir og skoðað hvort verðmerkingar inni í verslunum sem og í sýningargluggum væru sýnilegar. Verðmerkingar voru ekki í lagi í 17 verslunum. Það voru verslanirnar Álafoss, Calvi, Cintamani, Couture, Dr. Denim Jeansmakers, Einvera, GK Reykjavík, Jör, Kassetta, Leynibúðin, Náttúrulækningabúðin, Nordic Store, Púkinn 101, Rammagerðin, Rumputuski, Spiral design og Zo-on. 

Niðurstaða þessarar skoðunar voru þó mun betri en frá eftirlitsferð sem gerð var í júlí 2011 en þá voru um 67% verslana í ólagi. Þetta sýnir að eftirlit Neytendastofu hefur áhrif og verslanir gæta betur að því að fara að reglunum þegar haldið er úti virku eftirliti með verðmerkingum.

Vonast Neytendastofa til að verslunareigendur bregðist hratt og vel við og virði rétt neytenda til að sjá verð á vörum í sýningargluggum sem og inni í verslun.

Ef neytendur hafa ábendingar sem varða verðmerkingar er hægt að senda þær inn í gegnum heimasíðu Neytendastofu, www. neytendastofa.is.

 

TIL BAKA