Fara yfir á efnisvæði

Skoðun Neytendastofu á vefsíðum sem selja rafrænar vörur

07.12.2012

Neytendastofa tók þátt í samræmdri skoðun Evrópusambandsins (s.k. sweep) á vefsíðum sem selja leiki, tónlist, rafbækur og kvikmyndir sem neytandinn hleður niður af netinu. Skoðunin var gerð á grundvelli laga sem innleiða Evróputilskipanir um húsgöngu- og fjarsölusamninga, rafræn viðskipti og ósanngjarna samningsskilmála.

Skoðað var hvort gefnar væri upplýsingar um vörurnar og endanlegt verð þeirra. Auk þess var skoðað hvort fullnægjandi upplýsingar kæmu fram um þjónustuveitandann og hvert neytendur gætu snúið sér með kvartanir. Þá var farið yfir hvort skilmálar um rétt til að falla frá samningi væru í samræmi við ákvæði laga. Þar sem Neytendastofu er ekki falið eftirlit með ósanngjörnum samningsskilmálum náði skoðun Neytendastofu ekki til þeirra laga. Skoðun Neytendastofu náði til tíu vefsíðna.

Neytendastofa skráði athugasemdir við níu af vefsíðunum tíu þar sem ýmist vantaði ítarlegri upplýsingar um þjónustuveitanda eða upplýsingar um skilarétt neytenda. Þessum aðilum hafa verið send bréf þar sem óskað er eftir því að bætt verði úr upplýsingaskortinum.

Auk Íslands og Noregs tóku 26 aðildarríki ESB þátt í athuguninni sem tók í heildina til 333 vefsíðna. Í ljós kom að 76% þeirra uppfylltu ekki öll skilyrði. Algengast var að gerðar væru athugasemdir við ósanngjarna samningsskilmála (69% af síðunum). Þá var í 42% tilvika gerð athugasemd við upplýsingar um rétt til að falla frá samningi og í 36% tilvika gerð athugasemd að upplýsingar vantaði um þjónustuveitanda. Niðurstöður skoðunarinnar á Íslandi voru því í nokkru samræmi við skoðanir annarra eftirlitsstjórnvalda.

TIL BAKA