Fara yfir á efnisvæði

Könnun Neytendastofu á verðmerkingum í fiskbúðum

19.08.2008

Dagana 22 - 30. júlí sl. gerði Neytendastofa verðkönnun og athugun á ástandi verðmerkinga í fiskbúðum og fiskborðum matvöruverslana. Í þessari könnun var farið í 32 fiskbúðir og fiskborð í matvöruverslunum á höfuðborgar- og Árborgarsvæðinu sem selja fisk eftir lausri vigt.

Athuguninni var skipt í tvo flokka. Annars vegar var ástand verðmerkinga kannað og hinsvegar var framkvæmd verðkönnun á algengum fisktegundum.

Niðurstöður athugunarinnar eru eftirfarandi:

Ástand verðmerkinga
Verðmerkingar voru almennt í góðu lagi. Í einungis einni verslun var óverðmerkt og í annarri var verðmerkingum ábótavant. Tvær verslanir fá því skriflega ábendingu frá Neytendastofu um hvað megi betur fara í verðmerkingum.

Verðkönnun
Að mati Neytendastofu eru hinir ýmsu fiskréttir ekki samanburðarhæfir þar sem um mismunandi hráefni og samsetningu að ræða. Gerði stofnunin því eingöngu verðsamanburð á hreinum fiski í flökum eða bitum m.v. verð á hvert kg.
Verðkönnun leiddi í ljós að lægsta verð á ýsu, roð- og beinlausri, var 1180 kr/kg og það hæsta var 1490 kr/kg. Verðmunurinn þar var því 310 kr eða 26 % á hverju kílói.
Þegar kílóa verð á skötusel var borið saman kom í ljós að verðmunurinn var 1305 kr. Lægsta verð á skötusel var 1585 kr/kg og það hæsta var 2890 kr/kg. Þar munaði því 82 % á hverju kílói.
Hæsta verð á ýsuhakki var 1290 kr/kg og lægsta verð var 899 kr/kg, þar munaði því 391 kr eða 43 %.
Hæsta verð á saltfisk var 1798 kr/kg á hvert kg, en lægsta verð var 1190 kr/kg og munar því 608 kr á hverju kg eða 51 %.

Neytendastofa mun halda áfram verðmerkinga- og verðkannanaeftirliti sínu og gera athugun hjá fleiri verslunum. Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni rafraen.neytendastofa.is.

 

TIL BAKA