Fara yfir á efnisvæði

Athugun Neytendastofu á vefsíðum sem selja rafrænar vörur

31.10.2013

Þann 7. desember 2012 greindi Neytendastofa frá því að stofnunin hefði tekið þátt í samræmdri skoðun á vefsíðum sem selja leiki, tónlist, rafbækur og kvikmyndir sem neytandinn hleður niður af netinu. Neytendastofa skoðaði upplýsingar um einkenni þjónustunnar, hvort gefinn væri upp tölvupóstur til að leggja fram spurningar eða kvartanir og hvort um ósanngjarna samningsskilmála væri að ræða hjá tíu fyrirtækjum. Þau fyrirtæki sem skoðun beindist að voru tonlist.is, GogoYoko, filma.is, Eymundsson, Skinna, Forlagið, Lestu, Emma, Eve Online og Icelandic Cinema Online.

Auk Íslands tóku Noregur og 26 aðildarríki ESB þátt í athuguninni sem tók til 330 vefsíðna. Í ljós kom að 172 vefsíður, eða 52% þeirra vefsíðna sem skoðaðar voru, uppfylltu ekki skilyrði sem gerð eru til upplýsinga um þjónustuna. Flestar athugasemdir sem komu fram voru vegna óréttmætra samningsskilmála, óskýrra upplýsinga varðandi rétt neytenda til að hætta við samning og að það vantaði upp á upplýsingar um söluaðilann. Voru þær niðurstöður í samræmi við niðurstöður hérlendis.

Neytendastofa gerði athugasemdir hjá níu fyrirtækjum ýmist vegna skorts á upplýsingum um þjónustuveitendur eða rétt neytenda til að falla frá samningi. Fyrirtæki eiga að veita upplýsingar um m.a. heimilisfang, kennitölu, virðisaukaskattsnúmer og póstfang, netfang og aðrar upplýsingar sem gera neytanda mögulegt að hafa samband við fyrirtækið á greiðan hátt. Átta fyrirtæki gerðu viðeigandi úrbætur í kjölfar athugasemda Neytendastofu en stofnunin tók eina stjórnsýsluákvörðun gegn Lestu þar sem fyrirtækið birti ekki fullnægjandi upplýsingar um þjónustuveitanda eða leiðbeiningar um hvert neytendur ættu að beina kvörtunum vegna vandamála við kaup og með því að veita ófullnægjandi upplýsingar um rétt til að falla frá samningi.

Nú, ári frá því að skoðunin fór fram, hefur upplýsingum á 116 vefsíðum verið breytt í kjölfar stjórnvaldsaðgerða viðkomandi ríkis. Enn er unnið að stjórnvaldsaðgerðum til að fá 49 vefsíðum breytt, tvær síður eru ekki lengur til og í fimm tilfellum voru brot minniháttar og kröfðust ekki aðgerða aðildarríkis.

Í ljós kom að æ fleiri íbúar innan Evrópu kaupi rafrænt efni. Að meðaltali hafa 79% evrópskra neytenda notað rafræna tónlistarþjónustu og 60% hafa notað nettengda leiki á síðustu tólf mánuðum. Samkvæmt heimildum innan greinarinnar var virði niðurhals á tónlist innan Evrópusambandsins áætlað 677.000.000 Evrur árið 2010.

Fréttatilkynningu ESB í heild sinni má lesa hér.

TIL BAKA