Fara yfir á efnisvæði

Hátíðar Appelsín Vífilfells

29.12.2010

Ölgerð Egils Skallagrímssonar kvartaði yfir markaðssetningu og kynningu Vífilfells á Hátíðar Appelsíni. Kvörtunin snéri bæði að heiti vörunnar og umbúðum hennar sem og auglýsingum Vífilfells. Taldi Ölgerðin að félagið ætti einkarétt á orðinu Appelsín og að umbúðir Hátíðar Appelsíns væru eftirlíking af umbúðum þess Appelsíns sem Ölgerðin hafi framleitt í marga áratugi. Ölgerðin taldi auglýsingar Vífilfells með fullyrðingunum „Ekta Appelsín – bara hátíðlegra“ og „Þú sérð það strax, við fyrstu sýn. Þetta er Hátíðar Appelsín“ vera stælingu á auglýsingum Ölgerðarinnar.

Neytendastofa féllst ekki á að Ölgerðin ætti einkarétta á orðinu Appelsín enda væri það almennt orð og lýsti gosdrykk með appelsínubragði. Þá taldi stofnunin að þó svo að umbúðirnar virtust í fyrstu nokkuð líkar væru ýmislegt sem aðgreindi þær þegar betur væri að gáð. Því taldi stofnunin ekki ástæðu til að banna umbúðir Hátíðar Appelsíns.

Neytendastofa taldi fullyrðingar í auglýsingum Vífilfells fela í sér villandi upplýsingar um vöruna og skírskotun til óviðkomandi mála þar sem augljóslega væri um að ræða vísun til auglýsinga Ölgerðarinnar. Stofnunin bannaði því birtingu auglýsinganna.

Ákvörðun nr. 55/2010 má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA