Fara yfir á efnisvæði

Ástand verðmerkinga og voga í fiskbúðum ekki gott

18.10.2013

Í september síðastliðinn fóru fulltrúar Neytendastofu í 14 fiskbúðir á höfuðborgarsvæðinu til að athuga hvort verðmerkingar væru í samræmi við lög og reglur. Einnig voru löggildingar á vogum skoðaðar. En vogir sem notaðar eru til að ákvarða verð á vöru eiga að mæla rétt og vera löggiltar.

Kom í ljós að tæplega 43% fiskbúða eru ekki með löggildinguna í lagi, en það var hjá fiskbúðunum Hafrúnu, Litlu fiskbúðinni, Hafinu, Fiskbúðinni Vegamótum, Fylgifiskum og Fiskbúðinni Höfðabakka.  Verslanirnar verða að koma þessu í lag til að neytendur geti verið vissir um að þeir séu að greiða fyrir rétta vigt. 

Einnig kom fram að verðmerkingarnar voru ekki í lagi 28% tilvika.  Almennt voru verðmerkingar í borðum fiskbúðanna í lagi en ekki  í kæli.  Verðmerkingar voru ekki í lagi hjá fiskbúðunum Fylgifiskar Suðurlandsbraut og Fiskbúðinni Hafberg Gnoðavogi, Gallerý fiskur Nethyl og hjá Fiskbúðinni Höfðabakka.

Neytendastofa hvetur neytendur til að vera á verði og koma ábendingum til skila í gegnum rafræna neytendastofu á vefslóðinni www.neytendastofa.is.

TIL BAKA