Fara yfir á efnisvæði

Innflutningur á 15, 25 og 40 W glærum glóperum bannaður frá 1. september 2012

17.08.2012

Fréttamynd

Neytendastofa vill vekja athygli á að frá og með 1. september nk. er framleiðendum ljósapera ekki lengur heimilt að selja og dreifa glærum 15 W, 25 W og 40 W glóperum til heildsala og endursöluaðila. Þetta er gert til að uppfylla reglur um orkusparnað í aðildarríkjum EES. Orkusparandi perur nota allt að 80% minna rafmagn. Ef heimili skipta út tíu 60 W glóperum fyrir samsvarandi orkusparandi perur getur sparnaður heimila við kaup á raforku um allt að 7.000 krónum á ári. Neytendastofa fer með markaðseftirlit með ljósaperum og hefur eftirlit með að þessum reglum sé framfylgt. Verslunum er þó leyfilegt að selja þær glóperur sem fluttar eru inn fyrir 1. september nk.  og hreinsa af lager af eldri gerðum.

Neytendastofa hefur telur að mikilvægt sé að reglur séu kynntar fyrir almenning og hefur stofnunin sent erindi til iðnaðarráðherra með ósk þar að lútandi. Auk þess er að mati stofnunarinnar mikilvægt að fara í átak á markaðnum í því skyni að fjarlæga þær glóperur sem nú eru bannaðar.

Markaður fyrir ljósaperur hefur verið að breytast undanfarin ár á eftirfarandi hátt:
• Allar mattar glóperur óháð W styrkleika voru bannaðar frá 1. september 2009
• 75 W glærar glóperur og sterkari voru bannaðar frá 1. september 2010
• 60 W glærar glóperur voru bannaðar frá 1. september 2011
• 15, 25 og 40 W glóperur eru bannaðar frá og með 1. september 2012

Í staðinn fyrir gömlu glóperurnar koma  orkusparandi perur eins og sparperur og LED perur en einnig eru nú til halógen eco perur sem líta út eins og hefðbundnar glóperur. Umbúðir á að merkja með upplýsingum um lúmen (lm) auk upplýsinga um vött (W). Lúmen sýnir fram á hversu mikil birta fæst af perunni en vött (W) sýna fram á raforkunotkun. Algengt er að raforkunotkun sé allt að 80% minni með sparperum. Samkvæmt nýjum reglum má aðeins nota orðið „orkusparandi“ (e. energy saver) fyrir perur sem hafa bestu orkunýtingu og eru merktar í orkunýtniflokki A.
Aðrar merkingar sem skulu koma fram á vörunni eru meðal annars í hvaða orkunýtniflokki frá A til G ljósaperan tilheyrir og líftími perunnar.

Neytendur eru hvattir til að kynna sér merkingar og leiðbeiningar á umbúðunum. Auk þess hvetur stofnunin innflytjendur og seljendur til að kynna fyrir  neytendum þessar nýju vörur. 

Dæmi um merkingar á umbúðum má sjá á myndinni

Nánar má lesa um reglurnar í reglugerð nr.  580/2011, 579/2011 og 578/2011.

Unnt er að koma ábendingum á framfæri á vef Neytendastofu.

 

TIL BAKA