Fara yfir á efnisvæði

Verðsamræmi og verðmerkingar byggingavöruverslana á höfuðborgarsvæðinu.

14.06.2013

Dagana 04. Júní  – 07. júní 2013 gerði Neytendastofa könnun á ástandi verðmerkinga og samræmi hillu- og kassaverðs hjá byggingavöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Farið var í 7 verslanir sem selja byggingavörur, verslun Bauhaus og verslun Múrbúðarinnar, tvær verslanir BYKO og þrjár verslanir Húsasmiðjunnar.

Ástand verðmerkinga í verslununum var skoðað og verð á hillu og kassa borið saman á 25 vörum, sem valdar voru af handahófi.

Allur gangur var á samræmi milli hillu- og kassaverðs í þeim verslunum sem heimsóttar voru að þessu sinni.  T.a.m. var ein athugasemd gerð við samræmi verðs hjá Bauhaus en hins vegar reyndust 4 vörur af þeim 25 sem skoðaðar voru hjá Húsasmiðjunni á Dalshrauni ekki í lagi. Á heildina litið voru 92% af þeim 175 vörum sem kannaðar voru í lagi. 1% þeirra voru óverðmerktar, 4% á lægra verði og 3% á hærra verði á kassa heldur en við hillu. Auk samræmis voru verðmerkingar almennt í verslununum kannaðar. Þar reyndist verðmerkingum vera ábótavant, þ.e. að nokkuð væri um óverðmerktar vörur, í 2 af þeim 7 verslunum sem heimsóttir voru. 

Neytendastofa hefur sent BYKO og Húsasmiðjunni athugasemdir um að koma verðmerkingum í betra horf og mun skoðuninni verða fylgt eftir síðar.

Neytendastofa hvetur neytendur til að vera á verði og koma ábendingum um verðmerkingar til skila í gegnum rafræna Neytendastofu sem finna má á vefslóðinni www.neytendastofa.is

 

TIL BAKA