Fara yfir á efnisvæði

Skýrsla um gjöld flugfélaga

09.12.2009

Skýrsla um gjöld sem flugfélög leggja á fargjöld er afrakstur samstarfsverkefnis 11 evrópskra stjórnvalda á sviði neytendaverndar sem Neytendastofa tók þátt í. Undanfarið ár hafa stjórnvöldin rannsakað hvaða gjöld neytendum er skylt að greiða þegar keypt er flugfar og eru niðurstöðurnar birtar í skýrslunni.

Rannsóknin leiðir í ljós að flugfélög taka oft hluta af rekstrarkostnaði, s.s. eldsneytisgjald og bókunargjald, og setja í sérstakan gjaldalið nefndan „skattar og gjöld“. Sú framsetning getur verið villandi þar sem þessi aukagjöld renna ekki í ríkissjóð eða til flugvallarins auk þess sem slík framsetning getur haft þau áhrif á neytendur að þeim þyki flugfarið ódýrara en raunin er.

Ljóst er að sá mikli fjöldi heita, sem notaður er til að lýsa mismunandi sköttum, gjöldum og öðrum aukagreiðslum, gerir verðsamanburð erfiðari fyrir neytendur. Einnig reynist neytendum erfitt að fá upplýsingar um hver sé upphæð þeirra skatta og flugvallargjalda sem þeir eiga rétt á að fá endurgreidda noti þeir ekki flugmiðann.

Rannsóknin náði til 281 flugs, 24 evrópskra flugfélaga og 34 flugvalla í Evrópu. Á Íslandi kannaði Neytendastofa verðupplýsingar hjá Iceland Express og Icelandair og fékk upplýsingar um skatta og flugvallargjöld frá Keflavíkurflugvelli.

Niðurstöður skýrslunnar verða notaðar við gerð samkomulags við flugiðnaðinn sem nú er verið að vinna að hjá ESB auk þess sem samstarfsnefnd eftirlitsstjórnvalda, CPC-nefndin, mun gera áætlun um sameiginlega lausn á þeim vandamálum sem tilgreind eru í skýrslunni.

Skýrsluna má nálgast hér 

 

 

 

TIL BAKA