Fara yfir á efnisvæði

Raftækjaverslanir verða að bæta orkumerkingar

29.07.2013

Fréttamynd

Neytendastofa gerði könnun á því hvort staðlaðir orkumerkimiðar væru límdir á heimilistækin í raftækjaverslunum. Aðeins 8% af tækjunum voru réttilega merkt. Könnunin sýnir að mikið vantar upp á þekkingu á reglum um orkumerkingar heimilistækja. Orkumerkingarmiðar eiga auðvelda neytendum að sjá á aðgengilegan hátt upplýsingar um tegund, orkunýtni, árlega orkunotkun, hávaða og önnur helstu einkenni vörunnar eftir því sem við á.

Farið var í 14 raftækjaverslanir og kannaðar 300 vörur af fimm mismunandi gerðum, þvottavélar, þurrkarar, ísskápar, frystikistur og uppþvottavélar. Aðeins var að finna orkumerkingar á 25 tækjum og verður það að teljast lítið hlutfall miðað við allar þær vörur sem skoðaðar voru. Á þeim tækjum sem orkumerkingar voru ekki aðgengilegar utan á tækjunum voru þær oftast að finna inn í tækjunum sjálfum. Verslanir Elko komu best út úr könnuninni, þar voru 16 heimilistæki með orkumerkingu utan á tækjunum.

Í könnuninni voru sjónvörp einnig skoðuð þar sem ný reglugerð kveður á um að orkumerkingar skuli nú einnig vera á stjórnvarpstækjum. Könnunin leiddi í ljós að um þriðjungur sjónvarpstækja voru með orkumerkimiða límdan framan á, eða aftan á, tækin í verslunum Sjónvarpsmiðstöðvarinnar, Max raftækja og Bræðranna Ormssonar. Í öðrum verslunum sem kannaðar voru var lítið um að tækin væru merkt með stöðluðum orkumerkingum. Sambærileg könnun var gerð árið 2011 þar sem eitt tæki af 777 tækjum var merkt með stöðluðum orkumerkimiða.

Orkumerkingar
Með nýju útliti á miðum er búið að víkka út kvarðana, bætt var við 3 flokkum sem auðveldar neytendum að velja tæki sem hafa mikla orkunýtingu. Útlit merkimiðanna sýnir á skýran hátt orkumerkingakvarða, hann byggir á kvarða þar sem A+++ er tákn fyrir bestu orkunýtingu og G fyrir minnstu orkunýtingu. Mislitar örvar greina í sundur orkunýtni tækis sem nota minni orku frá þeim sem nota meiri orku.

Með eftirliti á orkumerkingum vill Neytendastofa auka aðhald á þessu sviði og upplýsa seljendur og neytendur um orkumerkingar. Neytendur geta lækkað útgjöld sín töluvert með notkun raftækja sem tryggja bestu mögulegu orkunýtinguna.

Neytendastofu fer fram á að verslanir sem selja raftæki merki vörur sínar með stöðluðum orkumerkingum í samræmi við kröfur. Miðinn á að vera sýnilega utan á vörunni þannig að neytendur eigi auðveldara með að bera saman  vörurnar og velja út frá orkunýtni tækisins og eiginleikum.

Eftirfarandi vöruflokkar eiga að vera auðkenndir með orkumerki:
•    Ís- og frystiskápar
•    Uppþvottavélar
•    Þvottavélar
•    Þurrkarar
•    Sameiginlegar þvottavélar og þurrkarar
•    Rafmagnslampar
•    Rafmagnsofnar
•    Loftræstikerfi fyrir heimilisnotkun
•    Sjónvörp

TIL BAKA