Fara yfir á efnisvæði

Ástand raflagna og rafbúnaðar á tjaldstæðum víða ábótavant

24.07.2008

Undanfarna mánuði hefur öryggissvið Neytendastofu fengið faggiltar skoðunarstofur til að kanna raflagnir og rafbúnað á rúmlega þrjátíu stöðum víðsvegar um land, þar sem mögulegt er að tengja hjólhýsi og húsbíla við rafmagn.

Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að oftast voru gerðar athugasemdir við merkingu búnaðar í rafmagnstöflum, eða í 78 % tilfella. Athugasemdir voru gerðar við almennt ástand rafmagnstaflna í 52 % tilfella og við frágang tauga í rafmagnstöflum í 48 % tilfella. Þá voru gerðar athugasemdir við lekastraumsrofvörn í  48 % tilfella. Athugasemdir við tengla voru í 41 % tilfella en oftast er um að ræða að notuð er röng gerð tengla.

Athygli er vakin á því að stofnunin lét gera sambærilega athugun á tjaldsvæðum víða um land fyrir þremur árum. Þrettán tjaldsvæði sem þá fengu athugasemdir vegna ástands rafbúnaðar voru nú skoðuð aftur og fengu þau öll aftur athugasemdir.

Neytendastofa áréttar að eigendur og umráðamenn tjaldstæða bera ábyrgð á ástandi raflagna
og rafbúnaðar sem þar er notaður. Neytendastofa hvetur til þess að bragabót verði nú þegar gerð á þeim tjaldstæðum þar sem raflagnir og rafbúnaður er ekki samkvæmt reglum og þannig stuðlað að bættu öryggi.

Frekari upplýsingar um könnun Neytendastofu er að finna  hér.

Einnig gefa Jóhann Ólafsson og Örn Sölvi Halldórsson hjá öryggissviði Neytendastofu frekari upplýsingar í síma 510 1100.

TIL BAKA