Fara yfir á efnisvæði

Auglýsing Nýherja ekki talin villandi

29.10.2013

Prentvörur lögðu fram kvörtun vegna auglýsingar Nýherja um þjónustu að nafni Tölvuský með yfirskriftinni „Vertu með ALT undir CTRL“. Töldu Prentvörur fullyrðinguna ósannaða og til þess fallna að vera villandi fyrir neytendur. Af hálfu Nýherja var m.a. bent á að auglýsingunni væri ekki beint að neytendum heldur varði hún hýsingu á netþjónum fyrirtækja.

Neytendastofa taldi yfirskrift auglýsingarinnar ekki vera eiginlega fullyrðingu og fæli hún ekki í sér samanburð af neinum toga. Af þeim sökum væri hún ekki þess eðlis að hægt væri að leggja fram sönnur henni til stuðnings. Yfirskrift auglýsingarinnar væri einfaldur leikur að beinþýddum orðum og féllst Neytendastofa á skýringar Nýherja um að auglýsingunni væri beint að fyrirtækjum en ekki neytendum.

Taldi Neytendastofa auglýsinguna því ekki ósannaða eða villandi og var ekki talin ástæðu til að aðhafast frekar vegna hennar.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA