Fara yfir á efnisvæði

Upplýsingar um seðilgjöld

05.02.2009

Algengt er að fyrirtæki leggi aukagjald (fylgikröfu) á kröfur sínar sem greiðanda er ætlað að inna af hendi. Algengt heiti þessa gjalds er seðilgjald en það ber einnig ýmis önnur heiti svo sem tilkynningagjald, innheimtugjald, útskriftagjald og jafnvel „annar kostnaður“.

Í tilmælum viðskiptaráðherra um innheimtu seðilgjalda sem beint var til fjármálafyrirtækja kemur fram að fyrirtækjunum er óheimilt að innheimta slík gjöld ef gjaldtakan byggir ekki á samningi kröfuhafa við greiðanda. Þá er óheimilt að krefjast hærra gjalds en sem nemur raunkostnaði við innheimtuna.

Heimildir til að leggja seðilgjald við kröfu eru mismunandi eftir eðli og tegund þeirrar kröfu sem verið er að innheimta.

Opinberum aðilum er ekki heimilt að innheimta seðilgjald án lagaheimildar. Könnun Neytendastofu hefur leitt í ljós að t.d. Íbúðalánasjóður, Lánasjóður íslenskra námsmanna og fyrirtæki sem starfa eftir raforkulögum hafa slíka heimild og mega því innheimta seðilgjald. Sé ekki kveðið á um fjárhæð gjaldsins í lögum skal að mati Neytendastofu taka mið af tilmælum ráðherra og gjaldið endurspegla raunkostnað við útsendingu seðla.

Þrátt fyrir heimild í raforkulögum hefur Neytendastofa fengið þær upplýsingar að sum fyrirtækin hafi boðið viðskiptavinum sínum upp á að fá reikninga sína rafrænt greiða með beingreiðslum eða kreditkorti, og geta þannig fengið fjárhæð gjaldsins lækkaða eða fellda niður.

Í lögum um neytendalán er um það fjallað að lánveitanda sé heimilt að krefja lántaka um greiðslu kostnaðar við innheimtu komi það fram í skilmálum lánsins. Hyggist lánafyrirtæki krefja viðskiptavini sína um greiðslu seðilgjalds samhliða afborgunum lánsins verður því að vera um það samið í lánssamningum. Misjafnt er hvort kveðið er á um fjárhæð gjaldsins í skilmálum eða hvort vísað er til gildandi gjaldskrár á hverjum tíma. Hvort sem er verður innheimta gjaldsins að taka mið af tilmælum ráðherra og er því ekki heimilt að krefjast hærra gjalds en sem nemur raunkostnaði.

Neytendastofa hefur fengið þær upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum að öll séu þau að vinna að því að koma innheimtu seðilgjalda í viðunandi horf, að teknu tilliti til tilmæla ráðherra.

Sé um neytendakaup að ræða, sbr. lög nr. 48/2003, er skv. 3. mgr. 37. gr. laganna óheimilt að krefjast þóknunar fyrir að gefa út og senda reikning. Í öðrum tilvikum, t.d. vegna áskrifta eða kaupa á þjónustu, verður innheimta seðilgjalds að byggja á samningi og endurspegla raunkostnað, sbr. tilmæli ráðherra. Hafi ekki verið samið um að greiðandi skuli greiða seðilgjald er innheimta þess því óheimil.

Neytendastofa vill vekja athygli á því að flest fjármálafyrirtæki bjóða fyrirtækjum þá þjónustu að sjá um innheimtu ýmissa gjalda. Einstaklingar geta því fengið senda greiðsluseðla frá fjármálafyrirtæki þó kröfuhafi sé annar. Í slíkum tilvikum er rétt að greiðandi leiti beint til kröfuhafa, sem breytt getur seðilgjaldi eða fellt það niður sé um að ræða neytendakaup eða gjaldið ekki í samræmi við samning aðilanna.

Einstaklingar sem krafðir eru um seðilgjald án samnings eða ef einstaklingar telja fjárhæð gjaldsins ekki endurspegla raunkostnað geta sent afrit af greiðsluseðlinum ásamt stuttri lýsingu til Neytendastofu, Borgartúni 21 105 Reykjavík. Þeir einstaklingar sem eiga seðlana á rafrænu formi geta sent þá í gegnum Rafrænna Neytendastofu, rafraen.neytendastofa.is.  Sé ástæða til mun Neytendastofa óska skýringa á innheimtu gjaldsins og fjárhæð þess.

Neytendastofa fjallar ekki um viðskipti milli fyrirtækja og því getur stofnunin ekki tekið við kvörtunum frá fyrirtækjum sem krafin eru um greiðslu seðilgjalds án þess að gjaldtakan byggi á samningi.

TIL BAKA