Fara yfir á efnisvæði

Nýjar reglur um verðmerkingar

01.06.2011

Í dag taka gildi nýjar reglur Neytendastofu um verðmerkingar. Um er að ræða annars vegar reglur nr. 536/2011, um verðmerkingar og einingarverð við sölu á vörum og hins vegar reglur nr. 537/2011, um verðupplýsingar við sölu á þjónustu. Um  leið falla úr gildi eldri reglur nr. 184/2000, um mælieiningarverð og reglur nr. 725/2008, um verðmerkingar og verðupplýsingar. 
Helstu breytingarnar sem reglurnar fela í sér eru:

• Heimilt að notast við verðskanna.
Meginreglan er að verðmerkja skuli með endanlegu verði t.d. þegar vara er vegin í kjötborði verslana. Í vissum undantekningartilvikum verður heimilt að upplýsa neytendur um endanlegt verð vöru með verðskanna. Undantekningin á einungis við þær vörur sem forpakkaðar af framleiðanda og ekki er unnt að staðla þyngd þeirra.  Við þessar aðstæður er varan vegin og þyngd vörunnar merkt af framleiðanda. Fyrirtæki eða verslun sem selur vöruna tilgreinir einingarverð hennar (verð pr./kg) með verðskilti eða hillumiða fyrir viðkomandi vöru. Auk þess ber verslunum sem nota slíkar aðferðir við sölu á slíkum vörum að setja uppverðskanna með nálægt vörunni. Endanlegt verð hverrar og einnar vöru fær neytandi með því að bera vöruna upp að verðskannanum.  Neytendur eiga að geta séð á kassakvittun hvort varan hafi verið vegin á sölustað eða framleiðslustað.

• Kryddjurtir, grænmeti og ávexti má selja í stykkjatali.
Almenna reglan er sú að grænmeti og ávextir skuli seldir samkvæmt þyngd og einingarverði. Nýju reglurnar gera nú ráð fyrir að verslunum verði veitt heimild til að gefa upp verð á kryddjurtum í potti, grænmeti og ávöxtum í stykkjatali en aðeins þegar að slíkar vörur eru seldar í stykkjatali og er það nýmæli sem getur hentað við sölu á einstökum vörutegundum. Í reglunum er gert ráð fyrir að Neytendastofa geti birt tæmandi  lista yfir þær vörur sem falla undir þessa undantekningu og mun það verða metið með hliðsjón af reynslu og viðskiptavenjum sem kunna að myndast um sölu í stykkjatali.

• Skylt að verðmerkja vörur á vefsíðum.
Í lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu er nú að finna auknar skyldur til að tilgreina verð í auglýsingum. Við endurskoðun á reglum nú hefur Neytendastofa ákveðið að framvegis verði skylt að verðmerkja vöru þar sem hún er auglýst og höfð til sýnis á vefsíðum óháð því hvort unnt er um er að ræða vefverslun eða kynningarsíður.

TIL BAKA