Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingar í Kringlunni

31.07.2013

Í byrjun júlí fóru fulltrúar Neytendastofu í  eftirlitsferð í sérvöruverslanir í Kringlunni til að skoða hvort verðmerkingar inni í verslunum sem og í sýningargluggum væru sýnilegar. Verslunareigendur eiga að hafa verðmerkingar skýrar og vel sýnilegar, sbr. lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og reglur um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar hvort sem það er inni í verslun eða í sýningarglugga.

Farið var í 108 verslanir og af þeim voru 74 með sýningarglugga fyrir vörur sínar.

Flestar verslanir voru með verðmerkingarnar í lagi.  Tíu verslanir voru ekki með verðmerkingar í lagi. Í verslunum Hygeu, Indiska, Kiss,  Morrow, Mýrinni, Zik Zak, Ígló og Auganu voru óverðmerktar vörur í sýningargluggum og hjá Blómabúðinni Kringlan, Islandia, Morrow og Hygeu voru vörur óverðmerktar í búðinni. Hygea og Morrow voru einu búðirnar með óverðmerktar vörur bæði í glugga og inni í verslun. Útsala var að byrja í júlí í Kringlunni og gæti það útskýrt vel verðmerktar verslanir. Samtals 10 verslanir fá því bréf til áminningar um að laga verðmerkingar í verslunum sínum, eða  um 10% þeirra verslana sem skoðaðar voru. Þetta er gríðarleg framför frá skoðun sem síðast var gerð mánaðarmót nóvember og desember 2010 þar sem 57 verslanir voru ekki í lagi.

Neytendastofa hvetur verslunareigendur til að haga verklagi með þeim hætti að verðmerkingar í sýningargluggum verði jafn sjálfsagður hlutur eins og verðmerkingar í versluninni sjálfri, enda er það allra hagur og sjálfsagður réttur neytenda.

TIL BAKA