Fara yfir á efnisvæði

Ástand verðmerkinga á Árborgarsvæðinu og í Hveragerði

22.08.2013

Í júlí sl. fóru fulltrúar Neytendastofu í Árborg og Hveragerði og gerði könnun hjá 23 fyrirtækjum. Farið var á 11 veitingastaði , fimm matvöruverslanir, tvær byggingavöruverslanir og fimm sérvöruverslanir.  Skoðaðar voru verðmerkingar, vogir, magnupplýsingar drykkja og vínmál.

Farið var á 11 veitingastaði, fimm í Hveragerði, fjóra á Selfossi, einn á Eyrabakka og einn á Stokkseyri. Af þessum 11 veitingastöðum voru fjórir staðir ekki með matseðil við inngang. Það voru Varmá í Hveragerði, Rauða húsið á Eyrabakka, Kaktus og Menam á Selfossi. Fimm staðir voru ekki með magnupplýsingar drykkja á matseðli, þ.e.a.s. ekki var tilgreint hve mikið magn var í einu glasi af bjór, víni o.s.frv. Rauða húsið á Eyrabakka, Fjöruborðið á Stokkseyri, Hofland Setrið í Hveragerði og Riverside og Kaktus á Selfossi. Auk þess var kannað hvort að vínmálin væru örugglega að mæla rétt.  Af þeim 11 veitingastöðum sem skoðaðir voru reyndust 6 þeirra nota veltivínmál (sjússamæla) sem ekki voru löggiltir eða Fjöruborðið á Stokkseyri, Rauða húsið á Eyrarbakka, Kaktus og Riverside á Selfossi og Varmá og Hótel Örk í Hvergerði.

Fimm matvöruverslanir eru á svæðinu Bónus í Hveragerði og Krónuna, Bónus, Nettó og Samkaup-Úrval  í Árborg.  Athugaðar voru verðmerkingar og samræmi milli hillu og kassaverðs á 50 vörum sem valdar voru af handahófi, auk þess sem skoðað var hvort einingaverð væri tilgreint á verðmiðum. Auk þess voru skoðaðar  löggildingar voga bæði á afgreiðslukössum og vigtum á kjötborðum. Vogir í verslunum á að löggilda á tveggja ára fresti til að staðfesta að þær séu að vigta rétt. Í þessum verslunum voru 28 löggildaskyldar vogir og reyndust þær allar með löggildinguna í lagi og með álímda löggildingamiða því til staðfestingar. Miðinn á að vera þannig staðsetur að viðskiptavinurinn eigi auðvelt með að sjá hann.

Tvær matvöruverslana á Selfossi, Nettó og Krónan voru með töluvert misræmi milli hillu- og kassaverðs. 11 vörur í Nettó og 25 vörur af 50 hjá Krónunni. Mestu munaði 29 krónum þar sem kassaverð var hærra en hilluverð.

Í sérverslunum var athugað hvort verðmerkingar í verslun og sýningarglugga væru í lagi. Farið var í fimm sérvöruverslanir, eina í Hveragerði og fjórar á Selfossi. Verslanir Lyf og Heilsu bæði í Hveragerði og á Selfossi reyndust ekki vera með verðmerkingarnar  í lagi. Tískufataverslun Barón á Selfossi var með vörur óverðmerktar í sýningarglugga.

Farið var í byggingavöruverslanir á Selfossi, Byko og Húsasmiðjuna.  Voru teknar 25 vörur af handahófi og borið saman hillu- og kassaverð auk þess sem farið var almennt yfir hvort vörur væru verðmerktar. Í báðum verslunum voru verðmerkingar í lagi.

Neytendastofa mun halda áfram verðmerkingaeftirliti sínu og gera athugun hjá fleiri verslunum.  Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni  neytendastofa.is.

 

TIL BAKA