Fara yfir á efnisvæði

Brunar og slys vegna rafmagns árið 2003 - skýrsla Löggildingarstofu komin út

26.10.2004

Hátt í 60% rafmagnsbruna á heimilum vegna eldavéla og sjónvarpa

Eignatjón vegna eldsvoða af völdum rafmagns er áætlað um 300 milljónir kr. árið 2003, segir í ársskýrslu Löggildingarstofu um bruna og slys af völdum rafmagns árið 2003 sem kom út í dag. Löggildingarstofa áætlar að brunar tengdir rafmagni hafi á árinu verið um 850, en skráðir brunar hjá stofnuninni eru 80 talsins.  Fækkaði brunum nokkuð á milli ára og tjón dregst verulega saman

Aðgæsluleysi og gleymska við notkun eldavéla algengasta ástæða bruna og talin valda um 200 milljón kr. eignatjóni árlega að meðaltali

Flestir brunar tengdir notkun rafmagns urðu vegna gleymsku eða aðgæsluleysis við notkun eldavéla, (23%) og vegna bilana í sjónvarpstækjum, (20%).  Á heimilum er vægi þessara tækja enn hærra, en hvort tæki kemur við sögu í 29% heimilisbruna.  Þvottavélar voru í þriðja sæti, en aðrir einstakir brunavaldar voru fátíðari. 

Áætlar Löggildingarstofa að brunar vegna eldavéla hafi verið um 200 á árinu og eignatjón samfélagsins þeirra vegna numið um 70 milljónum kr. á síðasta ári. Það er þó verulega minna tjón en meðaltal undanfarinna ára, sem talið er að hafi numið liðlega 200 milljónum kr.til jafnaðar árlega einungis vegna eldavélabruna.

Utan heimila eru brunar út frá rafmagnstöflum og dreifikerfum algengastir rafmagnsbruna, (20%).

Brunum vegna bilunar í sjónvarpstækjum fjölgar

Skráðum brunum vegna sjónvarpa fjölgaði talsvert á árinu en þeir hafa fram til þessa verið talsvert færri en eldavélabrunar, en voru álíka margir á síðasta ári.  Of snemmt er að segja til hvort um varanlega aukningu sé að ræða, en sjónvarpstækjum hefur fjölgað mjög síðustu ár og notkun þeirra vaxið.

Ekkert dauðsfall varð á árinu vegna rafmagnsbruna eða slyss af af völdum rafmagns.  Síðustu 10 árin hafa andlát í rafmagnsslysum verið 0,3 að jafnaði ár hvert og um 0,2 vegna rafmagnsbruna.  Í skýrslunni kemur fram að langflest rafmagnsslys (77%) má rekja til mannlegra mistaka, aðgæsluleysis og rangra vinnubragða.

Skýrslan er byggð á rannsóknum Löggildingarstofu á brunum og slysum vegna rafmagns, en á árinu tók Löggildingarstofa þátt í rannsóknum 80 bruna sem reyndust vera vegna rafmagns. Áætlar stofnunin að það séu um 11% allra rafmagnsbruna á árinu og að rannsóknirnar nái til flestra alvarlegri bruna og slysa.

Skýrsluna má nálgast á vef Löggildingarstofu hér á pdf snið eða word sniði.

Nánari upplýsingar veita Kjartan Rolf Árnason og Jóhann Ólafsson í síma 510 1100.

TIL BAKA