Fara yfir á efnisvæði

Bílasamningur Avant

09.02.2010

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun í tilefni kvörtunar vegna bílasamnings Avant í erlendri mynt. Stofnuninni barst kvörtun þar sem lántaki taldi sig ekki hafa fengið nægar upplýsingar um að um væri að ræða samning sem háður væri gengi erlendra gjaldmiðla og að vextir væru breytilegir. Við meðferð málsins var því einnig bætt við kvörtunina að með vísan til vaxtalaga hafi lánveitingin verið ólögmæt.

Í niðurstöðu Neytendastofu kemur fram að stofnunin telur ákvæði samningsins skýr um að vextir væru breytilegir og að leigugreiðslur væru háðar gengi erlendra gjaldmiðla. Auk þess kemur fram að lántaka hafi mátt vera ljóst að um erlent lán væri að ræða þegar sótt var um lánið af vefsíðu Avant og lántaki valdi samsetningu myntar úr fellilista.

Í ákvörðuninni er auk þess bent að á stofnunin geti ekki tekið afstöðu til þess hvort lánið sé ólögmætt með vísan til vaxtalaga enda er stofnuninni ekki falið að hafa eftirlit með þeim lögum, auk þess hafi þegar gengið dómur um það efni í héraðsdómi Reykjavíkur.

Neytendastofa kemst því að þeirri niðurstöðu að hún telji ekki ástæðu til frekari aðgerða af hálfu stofnunarinnar.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.


 

TIL BAKA