Fara yfir á efnisvæði

Duldar auglýsingar Krónunnar og 17 sorta

17.05.2017

Neytendastofa hefur bannað fyrirtækjunum Krónunni og 17 sortum að nota duldar auglýsingar í markaðssetningu.

Neytendastofu barst fjöldi ábendinga vegna stöðufærslna einstaklinga á Instagram þar sem fjallað var um ágæti vara og vörumerkja Krónunnar og 17 sorta. Fór Neytendastofa því fram á upplýsingar um það hvort einstaklingarnir hafi fengið greitt fyrir umfjallanirnar og hvernig staðið hafi verið að markaðssetningunni.

Að sögn Krónunnar og 17 sorta annaðist þriðja fyrirtækið milligöngu við einstaklingana við skipulagningu markaðssetningarinnar. Við meðferð málsins kom fram að einstaklingarnir höfðu þegið greiðslur fyrir umfjöllunina og því væri um auglýsingar að ræða. Færslurnar voru merktar með myllumerkjum með heitum fyrirtækjanna en Neytendastofa taldi merkingarnar ekki nægilegar til þess að neytendur gætu með góðu móti áttað sig á því að um auglýsingar væri að ræða.

Taldi Neytendastofa því að Krónan og 17 sortir hefðu brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005.

Ákvörðunina má nálgast hér.

TIL BAKA