Fara yfir á efnisvæði

Samanburðarauglýsing Múrbúðarinnar

08.09.2021

Neytendastofu barst kvörtun frá Húsasmiðjunni hf. vegna auglýsingar Múrbúðarinnar ehf. Í auglýsingunni var verð á Colorex Vagans 7 málningu Múrbúðarinnar borið saman við verð á Lady Vegg 10 málningu Húsasmiðjunnar á Íslandi og í Danmörku. Var það mat Húsasmiðjunnar að auglýsing Múrbúðarinnar og þær fullyrðingar sem þar komu fram væru villandi og að um ólögmæta samanburðarauglýsingu væri að ræða. Þá taldi Húsasmiðjan að auglýsingin bryti í bága við ákvörðun Neytendastofu nr. 2/2021.

Í svörum Múrbúðarinnar kom fram að kvörtun Húsasmiðjunnar væri hafnað og að það væri mat félagsins að auglýsingin uppfyllti öll skilyrði laga, bæði um samanburð á verði hér á landi
og í Danmörku.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að samanburðurinn væri ekki villandi eða óréttmætur enda skýrt tekið fram í auglýsingunni að borið sé saman verð í Danmörku annars vegar og á Íslandi hins vegar. Auk þess taldi Neytendastofa að um sambærilegar vörur væri að ræða, þ.e. vörurnar fullnægi sömu þörfum og séu staðgönguvörur við hvor aðra. Þá féllst stofnunin ekki á að Múrbúðin hafi brotið gegn ákvörðun Neytendastofu nr. 2/2021.

Var það því mat Neytendastofu að ekki væri tilefni til aðgerða af hálfu stofnunarinnar í málinu.

Ákvörðunina má lesa hér.

TIL BAKA