Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu staðfest Skanva

18.03.2022

Neytendastofa sektaði Skanva fyrir brot á útsölureglum og eldri ákvörðun stofnunarinnar með kynningum um 35% lægra netverð. Neytendastofa fór fram á að félagið sannaði að verðlækkunin væri raunveruleg en Skanva lagði ekki fram fullnægjandi gögn eða sýndi fram á það með öðrum fullnægjandi hætti að vörurnar hefðu verið seldar á hærra verði áður en verð þeirra lækkaði.

Félagið kærði ákvörðunina til áfrýjunarnefndar neytendamála sem nú hefur staðfest hana. Í úrskurði sínum tekur áfrýjunarnefnd undir það með Neytendastofu að þau gögn sem lögð voru fram feli ekki í sér fullnægjandi sönnun um raunverulega verðlækkun. Þá fjallar nefndin um að lög og reglur um útsölu komi ekki í veg fyrir að seljendur starfræki bæði verslun og netverslun og kynni afslátt ef keypt er í gegnum netverslun. Fari viðskipti öll fram í gegnum netverslunina sé hins vegar ekki um sérstakt verðhagræði að ræða.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér. (9/2021)

TIL BAKA