Fara yfir á efnisvæði

Fullyrðingar um ódýrasta rafmagnið og birting verðupplýsinga

19.07.2022

Neytendastofu bárust ábendingar um að N1 rafmagn ehf. birti ekki verðupplýsingar fyrir svokallaða þrautavaraleið, ætlaða neytendum sem velja sér ekki raforkusala, ásamt því að birta fullyrðingar í markaðsefni sínu um ódýrasta rafmagnið þrátt fyrir að vera ekki eini raforkusalinn á raforkumarkaði sem biði upp á auglýst verð félagsins til almennra viðskiptavina.

Í svörum sínum vísaði félagið til þess að það hafi ekki getað upplýst þrautavaraviðskiptavini um verð þar sem ekki hafi verið hægt að hafa samband við þá viðskiptavini áður en reikningur væri gefinn út. Þá vísaði félag jafnframt til hlutverks dreifiveitna. Þessu hafnaði Neytendastofa og taldi skyldu fyrirtækja til að upplýsa neytendur um verð vera skýra, þrátt fyrir að viðskiptavinir skráðu sig ekki sérstaklega í viðskipti við félagið.

Að lokum, í tengslum við fullyrðingar félagsins um ódýrasta rafmagnið, vísaði félagið m.a. til þess að sér væri ekki skylt að vísa til verðlagningar keppinauta í auglýsingum sínum. Félagið væri sannanlega með lægsta verðið á markaðnum. Því til stuðnings vísaði félagið til vals Orkustofnunar á söluaðila til þrautavara og upplýsinga á samanburðarvefsíðu. Þessu hafnaði Neytendastofa, enda gerðar strangar kröfur til sönnunar á fullyrðingum með efsta stigs lýsingarorði. Fullyrðingin sé afdráttarlaus og án fyrirvara og þar sem annað fyrirtæki bjóði þjónustuna á sama verði sé fullyrðingin ekki sönnuð.

Bannaði Neytendastofa N1 rafmagni að viðhafa viðskiptahætti þessa.

Ákvörðunina í heild sinni má lesa hér.

TIL BAKA