Fara yfir á efnisvæði

Upplýsingar um birgja Vínkaupa ekki trúnaðarmál

01.09.2010

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun í máli vegna kvörtunar Vínkaupa yfir notkun fyrrverandi starfsmanns á trúnaðarupplýsingum.

Vínkaup taldi að starfsmaðurinn, sem hóf störf hjá Vífilfelli eftir að hann hætti hjá Vínkaupum, hafi notað sér þekkingu á birgjum félagsins til þess að fá þá til að flytja viðskipti sín frá Vínkaupum til Vífilfells.

Til þess að upplýsingar úr rekstri fyrirtækja njóti trúnaðar skv. lögum verður annað hvort að vera kveðið á um það í ráðningarsamningi starfsmannsins að fara eigi með ákveðnar upplýsingar sem trúnaðarmál, eða að það liggi í hlutarins eðli að upplýsingarnar eigi að fara leyndar.

Í þessu máli var ekki kveðið á um trúnað á upplýsingum um birgja í ráðningarsamningi starfsmannsins og þar sem mjög auðvelt var að nálgast umræddar upplýsingarnar bæði á vefsíðu ÁTVR og á vefsíðu Vínkaupa taldi Neytendastofa það ekki liggja í hlutarins eðli að trúnaðar skyldi ríkja um þær. Í þessu tilfelli teldust upplýsingarnar því ekki trúnaðarmál.

Því taldi Neytendastofa ekki ástæðu til aðgerða í málinu.

TIL BAKA