Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa bannar samanburðarreiknivél Tals í óbreyttri mynd

08.12.2009

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun um reiknivél Tals þar sem neytendur gátu borið símreikning sinn saman við verð hjá Tali til þess að sjá hvort, og hversu mikið, þeir spöruðu á því að flytja viðskipti sín til Tals.

Með ákvörðuninni bannaði Neytendastofa birtingu reiknivélarinnar í óbreyttri mynd þar sem samanburðurinn brýtur gegn lögum. Í reiknivélinni var ekki tekið tillit til þess að neytandinn gæti verið með svokölluð vinanúmer sem hann borgaði ekki fyrir en kæmi hugsanlega til með að greiða fyrir hjá Tali. Þá var ekki tekið tillit til  þess að viðskiptavinir Símans geta t.d. fengið 50% afslátt af verði símtala í eitt símanúmer í útlöndum. Í reiknivélinni var þvert á móti gert ráð fyrir að verð fyrir útlandasímtöl hjá keppinautum væru þau sömu hjá Tali og því ekki litið til mismunandi verðskrár fyrirtækjanna.

Í reiknivélinni var verð keppinauta ávallt borið saman við verð í þjónustuleiðinni „Allur pakkinn“ hjá Tali. Allur pakkinn er áskriftarþjónusta þar sem áskrifendur geta lækkað eða jafnvel fellt niður mánaðargjald tiltekinna þjónustuþátta ef þeir eru með alla sína þjónustu hjá Tali. Notendur reiknivélarinnar gátu notað hana til þess að bera t.d. bara saman verð fyrir GSM en reiknivélin gerði þrátt fyrir það ráð fyrir að notandinn væri í Öllum pakkanum. Í þeim samanburði sýndi niðurstaðan því ekki réttan mismun á verði þar sem mánaðargjöld hjá Tali komu ekki fram.

Þá gerði Neytendastofa einnig athugasemdir við þær upplýsingar sem fram komu samhliða samanburðinum. Internetþjónusta getur verið mjög misjöfn og margir þættir haft áhrif á ákvörðun neytenda um það hvar þeir vilja vera í viðskiptum. Í samanburðinum var eingöngu litið til verðs þjónustunnar og ekki gerð grein fyrir því að hugsanlega væri hraði tengingarinnar og gagnamagn erlends niðurhals ekki hið sama. Auk þess var reiknivélin kynnt sem svo að neytendur gætu gert raunverulegan samanburð á þjónustu Tals og keppinauta á markaði. Að mati Neytendastofu var sú fullyrðing víðtæk og ekki í samræmi við það að útreikningar í reiknivélinni gerðu ráð fyrir ýmsum breytum eða skekkjum sem neytendum var ekki greint frá.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

 

TIL BAKA