Fara yfir á efnisvæði

Ummæli framkvæmdarstjóra Brimborgar ólögmæt

09.07.2009

Sparibíll kvartaði til Neytendastofu yfir fullyrðingum á vefsíðu Brimborgar sem og yfir ummælum framkvæmdastjóra Brimborgar á spjallvef fyrirtækisins.

Að mati Neytendastofu eru fullyrðingar Brimborgar um „rétta ábyrgð“, „rétta þjónustu“ og „þegar allt er tiltekið lægra verð en aðrir bjóða“ brot gegn ákvæðum laga nr. 57/2005 þar sem þær hafa ekki verið sannaðar og eru því ósanngjarna gagnvart keppinautum og til þess fallnar að hafa áhrif á ákvörðun neytenda um að eiga viðskipti.

Vegna ummæla framkvæmdastjóra Brimborgar á spjallvef fyrirtækisins segir í ákvörðuninni að ummælin séu sett fram í tengslum við fyrirspurn um verð á tiltekinni bifreið. Þeim sé því ætlað að hafa áhrif á eftirspurn bifreiðarinnar og hvetja til viðskipta við Brimborg umfram keppinauta. Ummælin hafi því að mati Neytendastofu verið sett fram fyrir hönd Brimborgar. Neytendastofa taldi það brot á ákvæðum laga nr. 57/2005 að á spjallvefnum kom fram að ábyrgð Sparibíls á bifreiðum sínum væri lakari en hjá öðrum. Í því sambandi var því haldið fram að „Brimborg kæmist aldrei upp með svona vinnubrögð“ og að viðskiptavinir Brimborgar „geri meiri kröfur en þarna sé boðið upp á.“ Þá kom fram á spjallvefnum að Sparibíll og aðrir söluaðilar vísi „ábyrgðarkostnaði“ á Brimborg og að „þessir aðilar geti auðvitað ekki látið aðra þrífa upp eftir sig“.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

 

TIL BAKA