Fara yfir á efnisvæði

Nýaðferðartilskipanir

Almennt um nýaðferðatilskipanir Evrópusambandsins
Frjálst flæði vöru og afnám tæknilegra viðskiptahindrana eru mikilvægustu þættirnir að því marki að gera innri markað ESB að veruleika. Árið 1985 samþykkti framkvæmdastjórn ESB hina svokölluðu „nýju aðferð“, en tilgangurinn með henni var að fækka tæknilegum viðskiptahindrunum milli landa, þ.e.a.s. því umhverfi að hvert land fyrir sig gæti sett kröfur á vöru og hamlað þannig innflutningi frá öðrum löndum.

Nýaðferðatilskipanir og staðlar
Þær vörur og þeir vöruflokkar sem falla undir nýaðferðatilskipanir Evrópusambandsins eiga að uppfylla lágmarkskröfur sem settar eru fram í viðeigandi tilskipunum um öryggi, heilsu og umhverfi sem og nánari kröfur sem skilgreindar eru í íslenskum stöðlum sem innleiða samhæfða Evrópska staðla (ÍST EN). Þetta þýðir með öðrum orðum að það er framleiðandinn sem ber ábyrgð á því að varan uppfylli kröfur og að hún sé CE-merkt því til staðfestingar. Tengsl milli staðla og tilskipananna gera það að verkum að vara sem uppfyllir kröfur staðla uppfyllir sjálfkrafa ákvæði tilskipunarinnar. Þar með er vörunni frjálst að fara um markaðssvæði EES landa.

Vörur sem falla undir nýaðferðatilskipanir Evrópusambandsins og eru CE-merktar því til staðfestingar mega ferðast frjálst yfir landamæri innan evrópskaefnahagssambandsins. CE-merkinu hefur því oft verið líkt við vegabréf vöru. CE-merkið er ekki ábending til neytenda um að vara sé sérstaklega vönduð eða örugg því merkið varðar eingöngu þau stjórnvöld í aðildarríkjunum sem bera ábyrgð á eftirliti með því að vara uppfylli skilyrði ESB.

Nýaðferðatilskipanirnar kveða skýrt á ábyrgð framleiðenda. Það er ávallt framleiðandi/innflytjandi sem er ábyrgur fyrir öryggi vöru. Í flestum tilfellum er nægilegt að framleiðandi/innflytjandi staðfestir/vottar að varan sé í samræmi við viðeigandi kröfur. Einungis ef um mikla slysahættu er að ræða eða ef staðall um viðkomandi vöru nær ekki yfir ákveðinn þátt er gerð krafa um að varan sé prófuð af óháðum aðila (lækningatæki, flóknar vélar o.þ.h.).

Meginreglan um að vörur sem uppfylla gerðar kröfur megi ferðast frjálst yfir landamæri gengur út frá því að fyrir hendi sé virkt og öflugt markaðseftirlit, en í öllum nýaðferðatilskipunum er ákvæði um eftirlit á markaði með öryggi vöru. Hér á landi er eftirlit með öryggi vöru (sem falla undir ólíkar nýaðferðatilskipanir) í höndum mismunandi eftirlitsstofnana.

Eiga allar vörur að vera CE-merktar?
Ekki allar vörur á markaði eiga að vera CE-merktar. Það eru einungis þær vörur sem falla undir tilgreindar nýaðferðatilskipanir sem hafa að geyma ákvæði um CE-merkið. Alls hafa verið samþykktar 22 nýaðferðatilskipanir en þess utan eru tilskipanir sem byggja á forsendum nýaðferðatilskipana en krefjast ekki CE-merkingar, tilskipanir sem byggja á forsendum nýaðferðaliskipana (e. Global Approach) og tilskipanir sem byggja á tilvísan til staðla. Hér að neðan má finna lista yfir þessar tilskipanir.

Dæmi um tilskipun sem krefst ekki CE merkingar vöru en byggir á tilvísan til staðla er tilskipun um öryggi vöru, 2001/95/EB (The General Product Safety Directive) sem jafnframt er til fyllingar nýaðferðatilskipunum t.d. hvað varðar framkvæmd markaðseftirlits. Hún gildir um allar vörur sem ekki eru til um sérstakar reglur. Hér má finna frekari upplýsingar um tilskipun um öryggi vöru.

Hvaða reglur gilda um áfestingu CE merkis á vöru?
Aðferðir við CE merkingar má finna í ákvörðun ráðsins frá 22. júlí 1993, 93/465/EBE, um aðferðareiningar fyrir hin ýmsu þrep samræmismatsins og reglur um áfestingu og notkun CE-samræmismerkja sem ætlað er að nota í tilskipun um tæknilega samhæfingu.

CE skammstöfunin stendur fyrir orðin Commission Européenne.

Gagnlegar upplýsingar um nýaðferðatilskipanir og staðla þeim tengdum má finna hér. 

 

TIL BAKA