Fara yfir á efnisvæði

Pakkaferðir

Pakkaferð er samsetning a.m.k. tveggja mismunandi tegunda ferðartengdrar þjónustu vegna sömu ferðar, að uppfylltum nokkrum skilyrðum.

    •  Ferðin er sett saman af einum seljanda, þ.m.t. að beiðni eða eftir óskum ferðamanns, áður en einn samningur er gerður eða
    •  þjónustan, óháð því hversu margir samningar eru gerðir, er:
        o  keypt og valin á sama stað áður en ferðamaður samþykkir að greiða fyrir hana,
        o  boðin til sölu, seld eða krafist greiðslu fyrir hana á heildarverði,
        o  auglýst eða seld sem pakkaferð eða með hætti sem gefur slíkt til kynna,
        o  sett saman eftir að samningur er gerður og seljandi veitir ferðamanni rétt til að velja mismunandi tegundir ferðatengdrar þjónustu, eða
        o  keypt af mismunandi seljendum með hjálp samtengdra bókunarferla á netinu þar sem seljandinn, sem fyrsti samningurinn er gerður við, sendir nafn, greiðsluupplýsingar og tölvupóstfang ferðamannsins til annars eða annarra seljenda og samningur er gerður við þá innan 24 klst. frá staðfestingu bókunar fyrstu ferðatengdu þjónustunnar.

Í lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018 er fjallað um réttindi ferðamanna og skyldur seljenda. Neytendastofa hefur eftirlit með lögunum að undanskyldum tryggingarákvæðunum sem heyra undir Ferðamálastofu.

Upplýsingarskylda og samningur um pakkaferð

Lögin leggja ríka upplýsingaskyldu á seljendur pakkaferða fyrir samningsgerð, í samningi um pakkaferð og áður en pakkaferð hefst. Áður en samningur um pakkaferð er gerður verður seljandi að upplýsa ferðamanninn á stöðluðu og sérstöku formi að um pakkaferð sé að ræða, helstu réttindi ferðamannsins og að hann njóti tryggingarverndar komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar seljanda. Auk þess ber seljanda að veita ferðamanni viðeigandi upplýsingar um ferðina, um seljandann og helstu skilmála.

Algengt er orðið að ferðagögn séu að öllu leyti rafræn og má ætla að flestir ferðamenn óski eftir upplýsingum og gögnum með rafrænum hætti. Hins vegar er rétt að veita ferðamanni umbeðin gögn á pappír sé sérstaklega óskað eftir því og er þá sérstaklega horft til þess að þau gögn sem kveðið er á um í ákvæðinu eru mikilvæg ferðagögn, svo sem farmiðar og upplýsingar um brottfarartíma.

 


TIL BAKA