Fara yfir á efnisvæði

Rafræn viðskipti

Neytendastofu er með lögum nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu falið eftirlit með þeim ákvæðum laganna sem lúta að upplýsingaskyldu þeirra sem láta í té rafræna þjónustu.

Tekin hafa verið saman nokkur atriði sem neytendur ættu að hafa í huga við kaup á vöru og þjónustu á Internetinu:

Einnig hafa verið teknar saman leiðbeiningar fyrir þjónustuveitendur:

Rafræn þjónusta er þjónusta sem er veitt gegn greiðslu úr fjarlægð með rafrænum hætti að beiðni þess sem hana þiggur. Undir rafræna þjónustu fellur einnig rafræn þjónusta sem veitt er án greiðslu ef hún felur í sér atvinnustarfsemi. Lögin taka þannig ekki aðeins til fyrirtækja heldur einnig til einstaklinga sem birta auglýsingar á vefsvæðum sínum, íþróttafélaga og félagasamtaka sem þiggja styrki í formi auglýsinga á Netinu og sölu líknarfélaga á minningarkortum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Eitt af markmiðum lagasetningarinnar er að efla traust til rafrænnar þjónustu meðal annars með því að skylda þann sem veitir þjónustu á Internetinu til að veita tilteknar lágmarksupplýsingar um sig. Neytendavernd í rafrænum viðskiptum skal þannig ekki vera lakari en í hefðbundnum viðskiptum. Á vefsetrum þar sem veitt er rafræn þjónusta verða eftirfarandi upplýsingar alltaf að vera aðgengilegar: 

  • nafn, eins og það er skráð í fyrirtækjaskrá, firmaskrá eða annarri skrá
  • heimilisfang fastrar atvinnustöðvar
  • kennitala
  • póstfang, ef það er annað en heimilisfang, þ.m.t. pósthólf 
  • netfang, símanúmer og bréfasíma
  • virðisaukaskattsnúmer
  • nafn þeirrar opinberu skrár sem þjónustuveitandi er skráður hjá, s.s. fyrirtækjaskrá. Skráning er skilyrði fyrir því að mega stunda verslunaratvinnu
  • ef starfsemin er háð leyfi verður að taka það fram og einnig hver hafi eftirlit með rekstrinum
  • ef starfsemin er lögvernduð, sbr. til dæmis arkitektar, verkfræðingar, iðnmeistarar, verður einnig að veita upplýsingar um: 
        - starfsheiti og í hvaða landi það er veitt 
        - hjá hvaða samtökum þjónustuveitandinn eða fyrirsvarsmaður hans
          er skráður 
        - gildandi starfs- eða siðareglur og hvar hægt er að nálgast þær

Rafræn viðskipti geta haft marga kosti í för með sér fyrir neytendur og geta viðskiptin verið hentugri og ódýrari en hefðbundin viðskipti. Tiltrú neytenda á rafrænum viðskiptum hefur afgerandi áhrif á þróun viðskiptanna og skiptir þar mestu að neytendur treysti þeim sem að baki viðskiptunum standa.


TIL BAKA