Fara yfir á efnisvæði

Sala hóffylliefnis með þjóðfána Íslendinga á umbúðum bönnuð

07.09.2023

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun gagnvart Líflandi ehf. vegna sölu á vörum þar sem umbúðir eru skreyttar broti úr íslenska fánanum. Um er að ræða vörur ISI-PACK sem m.a. framleiðir hóffylliefni fyrir hesta. Vörurnar eru framleiddar af hollensku félagi, erlendis úr erlendum hráefnum. Það var því álit Neytendastofu að um óheimila notkun á íslenska þjóðfánanum væri að ræða.

Umrædd notkun íslenska þjóðfánans sem er staðsett með áberandi hætti á framhlið umbúðanna fól að mati Neytendastofu í sér villandi upplýsingar til neytenda um uppruna varanna, enda neytendur réttilega mátt ganga út frá því að um íslenska vöru væri að ræða við athugun á framhlið umbúðanna. Með hliðsjón af heildarmati á útliti umbúðanna komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að neytendum hafi verið veittar rangar upplýsingar um helstu einkenni vörunnar í þeim tilgangi að hafa áhrif á ákvörðun neytenda um að eiga viðskipti við verslunina og viðskiptahættirnir þ.a.l. óréttmætir.

Bannaði stofnunin Líflandi að selja umræddar vörur.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA