Fara yfir á efnisvæði

Áskriftarskilmálar bókaútgáfunnar Eddu

11.09.2023

Neytendastofu barst ábending um skort á upplýsingum frá Eddu útgáfu um binditíma áskriftar við fjarsölu. Við athugun Neytendastofu voru gerðar ýmsar athugasemdir við upplýsingagjöfina og að staðfesting á samningi væri ekki send.

Edda tiltók að fjarsala áskrifta í gegnum síma færi eftir ákveðnum verkferlum og hafi talið sig uppfylla kröfur um upplýsingagjöf til neytenda. Meðan á meðferð málsins stóð tók félagið söluferlið til gagngerrar endurskoðunar og bætti upplýsingagjöf.

Neytendastofa taldi að þrátt fyrir umbætur á upplýsingagjöf og viðskiptaskilmálum Eddu á meðan á málsmeðferð stóð þá breyti það ekki því að upplýsingagjöf félagsins var ekki í samræmi við kröfur gildandi laga til upplýsinga fyrir og eftir að samningur kemst á. Ekki hafi verið veittar fullnægjandi upplýsingar við gerð fjarsölusamninga, staðfesting á samningi ekki send til neytanda á varanlegum miðli þegar gengið hafði verið frá áskrift auk þess sem ekki var upplýst um frest til að falla frá samningi. Upplýsingagjöf og viðskiptahættir bókaútgáfunnar Eddu hafi því brotið gegn lögum nr. 16/2016 og lögum nr. 57/2005.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA