Fara yfir á efnisvæði

Verslanir í miðbæ Reykjavíkur sektaðar fyrir verðmerkingar

20.12.2023

Neytendastofa hefur sektað 11 fyrirtæki í miðbæ Reykjavíkur fyrir ófullnægjandi verðmerkingar.

Í haust skoðaði Neytendastofa ástand verðmerkinga hjá verslunum á Laugavegi og aðliggjandi götum. Farið var í 109 verslanir og kannað hvort söluvörur væru verðmerktar auk þess sem kannað var sérstaklega hvort verðmerkingar væru sýnilegar á útstillingum t.d. í sýningargluggum. Í fyrri skoðun voru gerðar athugasemdir við verðmerkingar hjá 43 verslunum.

Skoðuninni var fylgt eftir hjá þessum 43 verslunum. Þá höfðu 28 verslanir bætt úr verðmerkingum sínum þannig að ekki þótti tilefni til frekari aðgerða hjá þeim.

Í 15 verslunum, sem reknar eru af 11 fyrirtækjum, voru gerðar athugasemdir vegna verðmerkinga í seinni skoðun Neytendastofu. Umræddar verslanir hafa nú verið sektaðar vegna ófullnægjandi verðmerkinga. Þetta eru verslanirnar Aurum, Álafoss, Arctic Explorer, Collections, Fjall Raven, Gull og Silfur, Icemart á Laugavegi, Icemart á Skólavörðustíg, Islandia, Levi‘s, Lundinn, Nordic Market á Laugavegi 25, Nordic Market á Laugavegi 51, Nordic Store og verslun Guðsteins.

Ákvarðanirnar má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA