Fara yfir á efnisvæði

Kvörðunargeta

Fjölmælar
Neytendastofa býr yfir góðum tækjabúnaði til að kvarða helstu rafstærðir fyrir algenga fjölmæla, þ.e. straum, spennu, tíðni og viðnám. Hægt er að kvarða flestar gerðir 4-5 stafa fjölmæla. Einnig er hægt að kvarða stök viðnám, spennugjafa og straumgjafa með umtalsverðri nákvæmni, t.d. 0,1% eða minna fyrir straum og spennu.

Mæligrunnar okkar eru kvarðaðir hjá Reasearce Institutes of Sweden (RI) í Svíþjóð.

Þrýstimælar
Neytendastofa býður upp á kvörðun þrýstimæla af ýmsum gerðum. Hún er gerð með því að setja gasþrýsting á mæli og mæla þrýstinginn jafnframt með því að mæla hann með nákvæmum þrýstimæli sem er landsmæligrunnur landsins fyrir þrýsting. Í eftirfarandi töflu sést geta Neytendastofu í hefðbundnum þrýstikvörðunum.

Mælisvið (afstæður þrýstingur)    Óvissa

-1 bar til 100 bar                                 0,01 %


Mæligrunnur fyrir þrýsting er kvarðaður hjá WIKA í Þýskalandi.

Hitamælar
Neytendastofa býður upp á faggilta kvörðun frá -80°C til 240°C. Þessar kvarðanir eru gerðar með samanburði við mæligrunna í böðum. Neytendastofa á einnig tvo fastapunkta ITS-90 hitakvarðans, þrífasapunkt vatns við 0,010(0)°C og bræðslumark gallíums við 29,764(6)°C og getur því kvarðað mæla mjög nákvæmlega við þau hitastig. Hægt er að fá flestar gerðir hitamæla kvarðaðar, s.s. glerhitamæla, viðnámshitamæla, hitatvinn sem og rafstærðir sjálfra hitanemanna. Ekki er fyrir hendi sérstakur búnaður til kvarðana á geislahitamælum. Hér fyrir neðan sést geta Neytendastofu á sviði hitakvarðana.

Á heimasíðu United kingdom Accreditation Service (UKAS) er hægt að finna upplýsingar um umfang faggildingarinnar með því að slá inn 0823 í reitinn undir „Laboratory number“.

Mælisvið                     Lágmarksóvissa

-80 til 240°C                    0,04°C

Hitamæligrunnar okkar eru kvarðaðir í mælifræðistofnun Bretlands, National Physical Laboratory (NPL). Verklagsreglur Neytendastofu eru unnar með ráðgjöf frá NPL og faggiltar af faggildingarstofu Bretlands UKAS.


Lóð
Neytendastofa býður upp á faggilta kvörðun lóða frá 1 mg upp í 500 kg. Eftirfarandi tafla lýsir því hvaða lóðaflokka hægt er að kvarða, flokkað eftir þyngd lóðanna, M1 og F1 eru nákvæmnisflokkar lóða sem eru skilgreindir af OIML.


Mælisvið               Lóð

1 mg - 20 kg           F1

1 mg - 500 kg         M1

Vogir
Neytendastofa býður upp á faggilta kvörðun voga með F1 og M1 lóðum frá 1 mg upp í 500 kg.

Mælisvið             Lóð

1 mg - 10 kg          F1

1 mg - 500 kg        M1

Á heimasíðu UKAS er hægt að finna upplýsingar um umfang faggildingarinnar með því að slá inn 0823 í reitinn undir „Laboratory number“.

Grunnlóð okkar eru kvörðuð í Svíþjóð hjá SP. Verklagsreglur við kvarðanir eru sniðnar eftir reglum Organisation Internationale de Métrologie Légale (OIML) nr. R 111-1 og faggiltar af faggildingarstofu Bretlands UKAS.

Herslumælar
Neytendastofa býður upp á ófaggilta kvörðun herslumæla (átaksskafta) með lágmarksóvissu <1%.

Lengd
Neytendastofa býður upp á kvörðun metrastika, rennimála og smámæla. Dæmi um kvörðunar nákvæmni er 0,4 mm, 0,01 mm og 0,005 mm fyrir ofangreinda mæla.


Mæliker
Neytendastofa kvarðar 25, 200 og 5000 lítra ker með hellingu en önnur ker eru kvörðuð með vigtun. 25 lítra mæliker okkar er kvarðað í Svíþjóð hjá SP, en önnur mæliker okkar eru kvörðuð með 25 lítra kerinu eða með vigtun. Verklagsreglur eru sniðnar eftir reglum Physikalisch-Technischen Bundesanstalt (PTB) í Þýskalandi.


Óvissureikningur
Óvissureikningar við kvarðanir eru gerðir eftir leiðbeiningum frá faggildingarsamtökum Evrópu, European co-operation for Accreditation (EA), sjá skjal EA-4/02 .

Verð
Verð fyrir kvarðanir er samkvæmt auglýsing um gjaldskrá fyrir kvörðunarþjónustu nr. 1330/2011.

 

 

TIL BAKA