Kærunefndir og úrlausnir

Traust neytenda er lykilatriði til að ná árangri í viðskiptum á neytendamarkaði. Komi upp ágreiningur milli neytenda og seljenda er varða samningsbundna skyldu sem rís af sölu- eða þjónustusamningi, skiptir miklu máli að neytendur hafi aðgang að einföldum, skilvirkum, hraðvirkum og ódýrum leiðum til að leysa úr ágreiningnum án þess að leita til dómstóla. Á nýju ári munu neytendur geta leitað til kærunefndar vöru- og þjónustukaupa vegna flestra ágreiningsmála.

kærunefnd vöru- og þjónustukaupa  

Með lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála nr. 81/2019 sem tóku gildi þann 1. janúar 2020 er kveðið á um að ráðherra skipi kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Neytendur geta óskað eftir úrskurði kærunefndarinnar vegna ágreinings sem rís af sölu- eða þjónustusamningi. Ráðgert er að nefndin verði skipuð og hefji störf snemma í janúar 2020.

Um störf nýju nefndarinnar fer eftir lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála nr. 81/2019 og reglugerð nr. 1177/2019 um kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Þegar nefndin hefur tekið til starfa geta neytendur leitað til hennar á mínu svæði nýrrar vefsíðu. Þar til nefndin hefur tekið til starfa verður hægt að nálgast allar nánari upplýsingar um málsmeðferð og störf nýju nefndarinnar hjá Neytendastofu.

Sérstök athygli er vakin á að frá og með 1. janúar 2020 er eldri kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa lögð niður. Enn eru nokkur mál sem bíða afgreiðslu hjá nefndinni og mun hún ljúka störfum á nýju ári. Neytendur sem leituðu til nefndarinnar á árinu 2019 munu því geta fengið álit frá nefndinni eða dregið kvörtun sína til baka kjósi þeir að gera það.

Eldri úrlausnir kærunefndar sjá hér.

 TIL BAKA